Af einhverjum sökum greinir fólk á um ástæðuna fyrir úthaldi og seiglu verðbólgunnar hér á landi.
Óumdeilt er að í þetta skiptið megi rekja upptök hennar til áhrifa kórónuveirufaraldursins á aðfangakeðjur, örvunaraðgerða seðlabanka ásamt gífurlegri innspýtingu opinbers fjár til að bregðast við faraldrinum, og síðan kröftugum viðsnúningi viðskiptalífsins þegar honum lauk. Bitbeinið er hvers vegna svo illa hefur gengið að ná tökum á bólgunni þrátt fyrir að ástæðurnar séu að mestu liðnar hjá eða hafi verið snúið við.
Er það vegna óbilgirni verkalýðsfélaganna sem leitt hafi af sér of miklar launahækkanir, eins og fulltrúar atvinnulífsins halda fram? Er það vegna taumlausrar græðgi fyrirtækja, eins og stjórnmálamenn á vinstrivængnum í mörgum ríkjum hafa haldið fram og forseti Seðlabanka Evrópu tók nýlega undir? Er það vegna mikils hagvaxtar og stríðsreksturs Rússa í Úkraínu, eins og fjármálaráðherra hefur fullyrt? Er það vegna þess að Seðlabanki Íslands er eini hagstjórnaraðilinn hér á landi sem sýnir eitthvert aðhald, eins og seðlabankastjóri kvartaði yfir á opnum fundi, á meðan ekkert lát er á útgjaldaaukningu og hallarekstri ríkissjóðs? Eða er það einhvers konar samspil margra eða allra þessara þátta?
Ef ríkisstjórnin skorast undan þeirri ábyrgð sinni þá verða byrðarnar þeim mun þyngri fyrir þau fyrirtæki og heimili sem minnst hafa svigrúmið til að forðast eða takast á við afleiðingar verðbólgunnar.
Hér er ástæða til rifja upp þá speki hagfræðingsins Miltons Friedman að þegar upp er staðið bera stjórnvöld ein ábyrgð á verðbólgu. Þau stýra peningamagni í umferð og setja leikreglurnar sem öðrum sem áhrif geta haft er gert að starfa eftir.
Viðvarandi verðbólga er öllum dýr. Þótt hún birtist okkur fyrst og fremst í formi hærra verðlags felst kostnaðurinn ekki síður í glötuðum tækifærum. Mikil verðbólga skapar óstöðugleika og óvissu og dregur þannig úr svigrúmi til nýsköpunar og annarrar verðmætasköpunar þar sem mikið er undir. Atvinnutækifæri verða færri og fábreyttari.
Líklega þarf ekki að útlista þetta fyrir lesendum þessa blaðs. Þótt sjaldnast sé sársaukalaust að ná niður verðbólgu er til mikils að vinna, og þeim mun betra ef hægt er að gera það hratt og örugglega. Ef ríkisstjórnin skorast undan þeirri ábyrgð sinni þá verða byrðarnar þeim mun þyngri fyrir þau fyrirtæki og heimili sem minnst hafa svigrúmið til að forðast eða takast á við afleiðingar verðbólgunnar.
Við skulum ekki gleyma því að stýrivextir eru ekki himinháir hér vegna þess að það er hægt heldur vegna þess að það er nauðsynlegt.
Hvers vegna eru stýrivextir stöðugt hærri hér en í nágrannalöndum? Jafnvel þegar best lét voru þeir þó tvöfaldir á við nágranna okkar. Þetta er ekki bara vegna smæðar krónunnar og íslenska hagkerfisins, sem bætir vissulega ekki úr skák, heldur einnig vegna þess sem virðist vera markviss ábyrgðarforðun stórleikenda.
Þar fer fremst í flokki þessa dagana ríkisstjórn sem sér ekkert athugavert við að halda áfram verulegum hallarekstri út kjörtímabilið þrátt fyrir að farsóttin sé á bak og burt. Á meðan slær hún sér á brjóst fyrir aðhald í formi frestunar á uppbyggingu samhæfingarmiðstöðvar, hækkunar skatta á fyrirtæki á næsta ári og í því að „nýta stafrænar lausnir“.
Oft er bent á að önnur lönd geti ekki hækkað stýrivexti jafn mikið og við án þess að lama atvinnulífið vegna þess að hér sé meiri hagvöxtur, en við skulum ekki gleyma því að stýrivextir eru ekki himinháir hér vegna þess að það er hægt heldur vegna þess að það er nauðsynlegt. Við það má svo bæta að hagvöxtur hér á landi er lítill sem enginn þegar leiðrétt er fyrir fólksfjölgun.
Það er frábært að verðbólgan hafi lækkað síðustu tvo mánuði, en við höfum þegar brennt okkur á því að hrósa sigri of snemma. Í þetta sinn hlýtur að þurfa að taka af allan vafa enda sjaldan verið meira í húfi með kjarasamninga vetrarins hangandi yfir okkur.
Ef ríkisstjórninni væri alvara með að leggjast á árar gegn verðbólgunni væru meintar aðhaldsaðgerðir hennar ekki eingöngu fólgnar í því að setja fram sömu áhrifalitlu aðgerðirnar og hún hefur þegar talað fyrir, og hún myndi ekki vera sátt við halla upp á 100 milljarða. Atvinnulífið er ekki sátt við það. Þjóðin er ekki sátt við það.
Í þessu ljósi er of snemmt að hrósa happi vegna óvæntrar lækkunar í sumar. Lengi lifir verðbólgan.
Höfundur er lögfræðingur og aðstoðarmaður þingflokks Viðreisnar.