Í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudag fjallaði Óðinn um fylgishrun stjórnarflokkanna, stöðu Sjálfstæðisflokksins og meðvirkni þingflokksins með eyðslufylleríi ráðherranna.
Hér er birt brot úr Óðni en áskrifendur geta lesið pistilinn í heild hér.
Gallup birti mælingu á fylgi flokkanna á þriðjudag. Þar eru nokkur tíðindi. Samfylkingin, sem fékk aðeins 9,9% í síðustu alþingiskosningum, mælist nú með 27,8% fylgi. Hefur flokkurinn ekki mælst svo hár í könnun í meira en áratug. Kristrún Frostadóttir virðist njóta trausts almennings, í það minnsta í könnunum, til að gera betur en núverandi ríkisstjórnarflokkar. Það gætu nú reyndar flestir.
Það sem hins vegar gæti stórskaðað Samfylk- inguna er ef Reykjavíkurborg lendir í greiðsluvandræðum eða greiðsluþroti. Kristrún hlýtur að vera ákaflega áhyggjufull yfir því þar sem til eru heilu sjónvarpsþættirnir þar sem hún er að hrósa fjármálastjórn Reykjavíkurborgar og segja að sveitarfélögin séu vel rekin. Sem er í besta falli uppspuni. Fleiri innanmein gætu einnig truflað sigurgöngu Kristrúnar. Óðinn ætlar að láta vera að fjalla um þau að sinni enda Kristrún svo viðkvæm fyrir málefnalegri gagnrýni Óðins að rétt er að ganga hægt um gleðinnar dyr í þeim efnum, líkt og öðrum.
Fylgi ríkistjórnarflokka í frjálsu falli
Fylgið við ríkisstjórnina er í frjálsu falli þessa dagana. Það hefur minnkað um 10,6% frá því í október. Það kemur engum á óvart. Það er öllum að verða það betur og betur ljóst að ríkisstjórnin er ábyrg fyrir verðbólgubálinu sem logar glatt. Og eins og Óðinn fjallaði um fyrir tveimur vikum þá hefur ríkisstjórnin ekkert gert til að draga úr ríkisútgjöldunum sem er stór ástæða verðbólgunnar.
Óðinn ætlar reyndar að spá því að ef verðbólgan helst há næstu mánuðina muni fylgi ríkisstjórnarflokkanna halda áfram að hrynja. Fylgi Vinstri grænna hefur helmingast frá kosningum, úr 12,6% í 6,6%. Það er 47,7% lækkun. Fylgi Framsóknarflokksins er líka hrunið, farið úr 17,3% í 9,6%. Það er nú ekki nema 44,5% lækkun.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur verið svo lítið í áratug að það er ómögulegt fyrir það að minnka. Það hefur þó farið úr 24,4% í 21,9%. Á líftíma þessarar ríkisstjórnar hefur það lægst farið í 19,8%. Það var í apríl í fyrra, korteri fyrir sveitarstjórnarkosningar, vegna sölunnar á Íslandsbanka.
Hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn?
Í fyrsta sinn í langan tíma er alvarleg umræða meðal flokksmanna Sjálfstæðisflokksins að stofna hægri flokk. Óðinn ætlar nú ekki að gerast spámaður um hvort af verður. Líkurnar á því munu aukast verulega ef núverandi forysta flokksins víkur ekki af sjálfsdáðum, fyrr en seinna. Óðinn hefur að svo komnu máli ekki mikla skoðun á því hver getur tekið við. Hann hef ur hins vegar þá skoðun að það geti enginn úr núverandi forystusveit flokksins.