Formaður VR fór mikinn í útvarpsþætti í vikunni í greiningu sinni á stöðu efnahagsmála. Þar var nokkuð um nýstárlegar hagfræðikenningar, frumlegar túlkanir á gögnum og fingrum bent í allar áttir. Hann undraðist til að mynda tregðu peningastefnunefndar við að samþykkja neikvætt raunvaxtastig hér á landi, þrátt fyrir að það hafi viðgengist árum saman í okkar samanburðarlöndum.

Formaður VR fór mikinn í útvarpsþætti í vikunni í greiningu sinni á stöðu efnahagsmála. Þar var nokkuð um nýstárlegar hagfræðikenningar, frumlegar túlkanir á gögnum og fingrum bent í allar áttir. Hann undraðist til að mynda tregðu peningastefnunefndar við að samþykkja neikvætt raunvaxtastig hér á landi, þrátt fyrir að það hafi viðgengist árum saman í okkar samanburðarlöndum.

Varla þarf að fjölyrða um það hér að neikvæðir raunvextir í hagkerfi sem býr við spennu og verðbólgu væru líklega ranga meðalið. Formaðurinn hafði þó eitthvað til síns máls og rauði þráðurinn í gremju hans var óásættanlega hár kostnaður við að búa hér á landi, eða eins og hann komst að orði: “Verðmætustu krónurnar sem við getum samið um er lægri kostnaður við að lifa.”

Langsamlega stærsti útgjaldaliður heimilanna er húsnæðiskostnaður. Hátt húsnæðisverð og mikill vaxtakostnaður er að miklu leyti heimatilbúinn vandi sem við vitum að þarf að leysa. Þó margt jákvætt megi finna í nýrri Hvítbók um húsnæðismál er sláandi hversu stór hluti uppbyggingarinnar á að vera á forræði yfirvalda. Heilbrigð íbúðauppbygging ætti að eiga sér stað á markaðslegum forsendum, byggð á skilvirku ferli og fjárhagslegum hvötum. Húsnæði verður nefnilega ekki hagkvæmt þó það sé niðurgreitt af skattgreiðendum. Og uppbyggingu verður ekki flýtt án þess að byggingarhæfar lóðir séu til taks og tiltekt eigi sér stað í regluverki og stjórnsýslu sem styttir allt framkvæmdaferlið. Þar ætti fókus yfirvalda að vera.

Svo eru það vextirnir. Hátt vaxtastig bitnar ekki eingöngu á skuldsettum heimilum heldur stendur það uppbyggingu nýrra heimila fyrir þrifum og viðheldur þannig háum húsnæðiskostnaði. Þó deila megi um ýmsar ályktanir formannsins má taka undir nauðsyn þess að draga úr kostnaði við að lifa. Forsenda þess er að ná niður verðbólgu og vöxtum.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.