Ragnar Þór hefur ekki aðeins verið upptekinn við að kryfja orsök verðbólgunnar því fyrir helgi greindi hann frá því að stjórn VR hafi ákveðið að hætta viðskiptum við Íslandsbanka, þar sem bankinn hafi ekki gert nóg til að bregðast við því sem fram kom í sátt bankans við Fjármálaeftirlit Seðlabankans.

Hrafnarnir sáu eins og margir í gegnum þetta leikrit formannsins en bíða spenntir eftir því að verkalýðsforingjarnir hóti því að segja upp viðskiptum við Seðlabankann í ljósi nýjustu stýrivaxtahækkunnar. Að sama skapi vakti það athygli þeirra að í samtali við Vísi virtist Ragnar Þór kalla eftir að Íslandsbanki réðist í hópuppsögn.

Hrafnarnir minnast þess ekki að hafa áður heyrt verkalýðsforingja hvetja til hópuppsagnar, ef frá er auðvitað talin helsti bandamaður Ragnars Þórs, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Hún braut eftirminnilega blað í verkalýðssögunni er hún sagði upp öllu starfsfólki eigin verkalýðsfélags.

Telja má víst að forstjórar stórfyrirtækja fengju á baukinn frá verkalýðsforingjum fyrir að hvetja til hópuppsagna opinberlega, en hið sama virðist ekki gilda um foringjana sjálfa.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.