Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra boðaði á Alþingi í vikunni erfiðar aðgerðir „á gjaldahlið en líka tekjuhlið“ ríkissjóðs. Orðin féllu í óundirbúnum fyrirspurnartíma þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði forsætisráðherra um fyrirhugaðar skattahækkanir og lagði sérstaklega áherslu á áhrif þeirra á ferðaþjónustuna.
„Aðhald á tekjuhlið“ er hugtak sem er upprunnið úr nýlensku Samfylkingarfólks, svo vísað sé til skrifa George Orwell, og þýðir einfaldlega skattahækkanir. Fyrirspurn Áslaugar Örnu hófst á þessum orðum: „Hæstvirt ríkisstjórn, sem lofaði því að hækka ekki skatta á venjulegt fólk í aðdraganda kosninga, er strax á fyrstu mánuðum í miklum skattahækkunargír. Þær skattahækkanir sem átti þó að ráðast í og sem á einhvern hátt áttu alls ekki að bitna á venjulegu fólki, átti að taka í öruggum og rólegum skrefum. Það hefur lítið farið fyrir því loforði.“
Ekki er að undra að Áslaug og aðrir þingmenn spyrji slíkra spurninga. Fyrstu verk ríkisstjórnar Kristrúnar bera öll merki um að skattar og álögur á almenning muni aukast – með beinum eða óbeinum hætti.
Frumvarp um vísitölutengingu bótagreiðslna felur í sér sjálfvirknivæðingu útgjalda ríkissjóðs sem grefur undan sjálfbærni opinberra fjármála. Í áliti fjármálaráðs um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar eru þessi áform gagnrýnd harðlega. Þar segir að breytingin feli í sér grundvallarskref í átt að nýrri fjármögnun opinberra útgjalda, með verulegum áhrifum á sjálfbærni fjármálanna. Fjármálaráð gagnrýnir jafnframt að engin greining hafi verið gerð á áhrifum þess að vísitölutengja bótagreiðslurnar. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki lagt mat á efnahagslegar afleiðingar frumvarpsins, blasir það við að útgjaldaaukningin mun að lokum bitna á launafólki í formi hærri skatta.
Aðför ríkisstjórnarinnar að sjálfræði sveitarfélaga mun einnig reynast dýrkeypt fyrir launafólk. Frumvarp um breytingar á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er í reynd dulbúin skattahækkun. Þar er kveðið á um að þau sveitarfélög sem innheimta ekki hámarksútsvar fái skertar greiðslur úr Jöfnunarsjóðnum. Afleiðingin er sú að hvati skapast til að hækka útsvarið í botn, ella skerðist stuðningur ríkisins — meðal annars til reksturs grunnskóla.
Þessi tvö frumvörp eru runnin undan rifjum Flokks fólksins. Enn verri verða tíðindin þegar litið er til verklegra áforma Katrínar Hönnu Friðriksson, atvinnuvegaráðherra Viðreisnar. Áform hennar um að veiðigjöld miðist við verð sem endurspegla ekki raunverulegt aflaverðmæti minna helst á efnahagsaðgerðir perónista í Argentínu — og gætu haft jafn alvarlegar afleiðingar hér á landi. Að því loknu beinist kastljósið að ferðaþjónustunni.
Kjósendur Samfylkingarinnar og Viðreisnar veittu flokkunum stuðning sinn í síðustu þingkosningum í þeirri trú að hófsöm miðjustjórn tæki við völdum. Í stað þess fengu þeir ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, sem virðist ætla sér að vera enn fjandsamlegri við verðmætasköpun atvinnulífsins en vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Jafnframt virðist ríkisstjórnin staðráðin í að hrinda óábyrgustu stefnumálum Flokks fólksins í framkvæmd.
Ríkisstjórnin nýtur enn nokkurra vinsælda, en það mun ekki vara lengi þegar afleiðingar þessarar stefnu fara að bíta almenning.
Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 21. maí 2025.