Týr greinir að það er kominn kosningaskjálfti í stjórnmálamenn. Verðandi formaður Vinstri grænna vill að kosið verði næsta vor og talsmenn hinna stjórnarflokkanna útiloka ekki að sú verði raunin.

Týr greinir að það er kominn kosningaskjálfti í stjórnmálamenn. Verðandi formaður Vinstri grænna vill að kosið verði næsta vor og talsmenn hinna stjórnarflokkanna útiloka ekki að sú verði raunin.

Sennilega er óumflýjanlegt að kosið verði þá til Alþingis en ekki næsta haust þegar kjörtímabilið rennur formlega sitt skeið á enda.

***

Þetta þýðir að stjórnarandstöðuflokkarnir þurfa í ríkari mæli að sýna spilin sem þeir ætla að leggja á borðin í komandi kosningum. Það hefur reyndar Samfylkingin að einhverju leyti gert þó það hafi ekki farið hátt í stjórnmálaumræðunni. Sú þögn skýrir að einhverju leyti af hverju flokkurinn fer með himinskautum í könnunum ásamt umtalsverðum kjörþokka Kristrúnar Frostadóttur, formanns flokksins.

Í stuttu máli er kjarni alls þess málefnastarfs sem flokkurinn hefur unnið í formannstíð Kristrúnar sá að auka ríkisútgjöld og hækka skatta.

***

„Ég er almennt frekar hrifinn af sköttum. Það vill nú bara svo til að háskattasamfélög eru þau sem eru alla jafna dýnamískust efnahagslega.“ Þessi orð lét Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar og náinn samverkamaður formannsins, falla á Alþingi fyrir nokkrum árum.

Týr efast ekki um að Jóhann Páll trúi því í raun að það geri samfélög „dýnamískari“ þegar stjórnmálamaður eins og hann ráðstafi þeim tekjum sem íbúar landsins afla sér í stað þeirra sjálfa. Látum það liggja milli hluta.

***

Staðreynd málsins er hins vegar sú að Ísland er nú þegar „háskattasamfélag“. Það verður ekki gengið lengra í þeim efnum án þess leggja efnahagslífið varanlega í rúst. Þegar búið er að leiðrétta fyrir ólík almannatryggingakerfi – sem er rétta leiðin til að bera saman skattheimtu milli ríkja – sést að skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eru þær fjórðu hæstu meðal OECD-ríkjanna.

Stjórnmálaflokkar á borð við Samfylkinguna sem eru nú þegar farnir að boða útgjaldaaukningu fyrir fleiri tugi milljarða, komist þeir til valda, þurfa að útskýra hvernig þau loforð verða eiginlega fjármögnuð. Samfylkingunni tókst ekki að koma þeim fjölda Reykvíkinga sem er á hrakhólum fyrir í íbúðum sem var einungis að finna í glærukynningum. Samfylkingunni mun ekki heldur takast að fjármagna loforð sín í landsmálunum með skatttekjum sem eru ekki til staðar.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 2. október 2024.