Síðastliðinn miðvikudag ákvarðaði peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands 50 punkta lækkun meginvaxta og að þeir skyldu vera 8,5%. Samhliða gaf bankinn út ritið Peningamál sem inniheldur uppfærða þjóðhagsspá.

Endurskoðunin sýnir meginvexti lækka meira á næsta ári en þó ekki meira en að væntir vextir verða að meðaltali um 40 punktum lægri samanborið við spá bankans í ágúst, þrátt fyrir að nú geri bankinn ráð fyrir um 80 punktum minni verðbólgu en í síðustu spá. Skýrist þetta einkum af mun meiri framleiðsluspennu á líðandi ári og á því næsta sökum endurmati Hagstofu Íslands á þjóðhagsreikningum. Áhrifin endurspeglast ennfremur í að bankinn spáði í ágúst atvinnuleysi um 4,1% í ár en reyndin er að atvinnuleysi ársins var 3,6%. Slík spáskekkja er afdrifarík þegar kemur að ákvörðun meginvaxta og setningu fjárlaga.

Í þeim tilvikum sem lesendur hafa yfir að ráða þjóðhagslíkani Seðlabankans er mögulegt að færa inn spániðurstöður Peningamála og leysa út fyrir að meginvextir verða 5,1% á fjórða fjórðungi næsta árs – á sama tíma og verðbólga verður tæplega 3,2%. Fyrir vikið munu mánaðargreiðslur af 40 milljóna króna óverðtryggðu láni sem fylgir að fullu meginvöxtum Seðlabanks lækka um 96 þúsund krónur.

Sex dögum áður en peningastefnunefnd ákvarðaði vexti birti Seðlabankinn niðurstöður könnunar meðal markaðsaðila um vexti og verðbólgu eitt ár fram í tímann. Niðurstöðurnar eru um margt áhugaverðar en einkum væntingar markaðsaðila um 3,5% ársverðbólga eitt ár fram í tímann og að meginvextir verði þá 7,2% reiknaðir í flata vexti. Með öðrum orðum, markaðsaðilar reikna með vöxtum í lok næsta árs sem eru 210 punktum hærri en Seðlabankinn gerir ráð fyrir.

Undirritaður fullyrðir fátt um kvöldsagnahagfræði tilfinninganna líkt og trúverðugleika Seðlabankans eða helgun einstaklinga peningastefnunefndar því markmiðið er fremur að afdulkóða virkni vélarinnar sem hagkerfið er. Myndin sýnir ávöxtunarkröfur 5 ára óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisskuldabréfavísitalna Kauphallarinnar frá ársbyrjun 2012 til síðastliðins mánudags, og skyggða svæðið á milli þeirra lýsir væntingum markaðsaðila í könnun Seðlabankans um verðbólgu eitt ár fram í tímann.

Greina má að sögulega eru eins árs verðbólguvæntingar ráðandi þáttur í verðlagningu verðbólgu í vöxtum til fimm ára. Samkvæmt Kodiak reyndist óverðtryggð ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréfum til fimm ára 6,7% síðastliðinn mánudag en verðtryggð með sama meðaltíma nærri 3%. Taki fjárfestar aukið tillit til lengri tíma en eins árs má gera ráð fyrir að þessi munur fari lækkandi og verðlagning til samræmis – nema þeir vænti viðvarandi þennslu yfir jafnvægi án verðbólgu um ókomin ár.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru við ritun hennar. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið ber ekki ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.