Victor Gao, frammámaður í kínverska kommúnistaflokknum og fyrrverandi túlkur Dengs Xiaoping, var meðal ræðumanna á ársfundi Íslandsstofu í vikunni. Viðskiptatengsl við Kína verða vafalaust mikilvæg Íslandi til framtíðar, en þeim hlaut að renna kalt vatn milli skinns og hörunds sem muna eftir kaldastríðsárunum þegar Gao talaði um „strategískt“ mikilvægi Íslands fyrir Kínverja.

Smáríkjum hefur sjaldan reynst það hollt þegar öflug einræðisríki fara að líta á þau sem strategískt mikilvæg. Annars vakti það athygli viðmælenda Gao að hann notar sjálfur Hotmail vefpóstþjónustuna. Hvort það er vegna þess að hann vill með þessu losna undan netnjósnum yfirboðara sinna eða vegna þess að Hotmail er orðið vinsælt aftur meðal kínverskra hipstera skal ósagt látið.