Rómverski keisarinn Neró var sakaður um að leika á fiðlu á meðan Róm brann. Sumir leiðtogar okkar tíma eru sýnu verri. Þeir kasta olíu á eldinn. Bókstaflega. Afleiðingar innrásar Rússlands í Úkraínu finnast um allan heim. Viðbrögð sumra ríkja við vaxandi orkukreppu er að grípa í enn ríkari mæli til jarðefnaeldsneytis. Andvirði milljarða Bandaríkjadala er varið í kol, olíu og gas, sem eru drifkraftar síversnandi loftslagshamfara.
Á sama tíma er hvert metið á fætur öðru slegið í loftslagsmálum. Því er spáð að ofsaveður, flóð, þurrkar, jarðeldar og óbærilegur hiti muni einkenna framtíðina á stórum hluta jarðar.
Nýjar fjárfestingar í leit að olíulindum og innviðum olíuframleiðslu eru blekking. Jarðefnaeldsneyti er ekki svarið og mun aldrei verða. Við sjáum skaðann sem það veldur plánetunni og þjóðfélagi okkar. Jarðefnaeldsneyti er orsök loftslagsvárinnar. Endurnýjanlegir orkugjafar eru svarið því notkun þeirra takmarkar röskun á loftslaginu og eflir orkuöryggi.
Friðaráætlun 21. Aldarinnar
Ef fjárfest hefði verið fyrr og meir í endurnýjanlegri orku værum við ekki háð óstöðugum markaði jarðefnaeldsneytis. Endurnýjanleg orka er friðaráætlun 21. aldarinnar. En baráttan fyrir skjótum og réttlátum orkuskiptum er ójafn leikur.
Fjárfestar veðja enn á jarðefnaeldsneyti og ríkisstjórnir niðurgreiða kol, olíu og gas með milljörðum dala – 11 milljónir á hverri mínútu. Það er til orð yfir að velja skammvinna sælu í stað langtíma velferðar. Fíkn. Við erum háð jarðefnaeldsneyti. Við verðum að hætta í nafni heilbrigðis samfélaga okkar og plánetunnar. Núna.
Eina færa leiðin til öryggis í orkumálum, stöðugs verðlags á orkugjöfum, velmegunar og lífvænlegrar plánetu felst í því að hætta að nota mengandi jarðefnaeldsneyti. Þess í stað þarf að hraða umskiptum yfir í endurnýjanlega orku.
Ríkisstjórnum G20-ríkjanna ber að leysa upp innviði kolaiðnaðarins og hætta kolavinnslu smám saman fyrir 2030 í OECD-ríkjum og fyrir 2040 annars staðar.
Fimm liða áætlun
Og ég hef lagt fram áætlun í fimm liðum til að efla endurnýjanlega orku um allan heim.
Í fyrsta lagi ber tækni í endurnýjanlega orkugeiranum að vera almannaeign. Það felur í sér afnám hindrana á sviði höfundarréttar fyrir því að tækniþekkingu sé deilt.
Í öðru lagi verður að bæta aðgang um víða veröld að aðfangakeðju þeirra hluta sem til þarf tæknilega í endurnýjanlegri orku, auk hráefna. Árið 2020 nam geta rafhlaða í heiminum til að hýsa orku að hámarki 5 gígavöttum, en fyrir 2030 þarf að auka þetta í 600 gígavött. Þetta krefst alþjóðlegs bandalags. Flöskuhálsar í sjóflutningum og hindranir í aðfangakeðjunni, auk hás verðs á líþíumi og öðrum málmum til rafhlöðugerðar, standa notkun slíkrar tækni fyrir þrifum, einmitt þegar við þurfum mest á henni að halda.
8-10 ár að fá leyfi fyrir vindorku
Í þriðja lagi þarf að ryðja úr vegi skrifræðislegum hindrunum sem standa í vegi fyrir verkefnum á sviði sólar- og vindorku. Leyfa ber flýtimeðferð til að samþykkja slík verkefni og efla viðleitni til að nútímavæða raforkuflutninga. Innan Evrópusambandsins tekur 8 ár að samþykkja vindorkuver og 10 ár í Bandaríkjunum. Í Suður-Kóreu þarf 22 leyfi frá 8 mismunandi ráðuneytum til að samþykkja vindorkuver á landi.
Í fjórða lagi ber að færa niðurgreiðslur á orku í heiminum frá jarðefnaeldsneyti til þeirra sem höllustum standa fæti og vernda þá fyrir verðhækkunum. Fjárfesta ber í réttlátum umskiptum í þágu sjálfbærrar framtíðar.
Í fimmta lagi þurfum við að þrefalda fjárfestingar í endurnýjanlegri orku. Þetta á jafnt við um milliríkjaþróunarbanka og viðskiptabanka. Öllum ber að herða sig og auka fjárfestingar í endurnýjanlegri orku umtalsvert.
Við erum nú þegar hættulega nærri 1,5 °C markinu sem vísindin segja okkur að sé sú hámarkshlýnun sem megi verða til að forðast alvarlegustu afleiðingar loftslagsbreytinga. Til þess að halda markmiðinu um 1,5 °C verður að minnka losun um 45% fyrir 2030 og ná nettónúll losun fyrir miðja öldina. En núverandi landsmarkmið gera ráð fyrir nærri 14% aukningu á þessum áratug.
Olía hækkar – endurnýjanleg orka lækkar
Þetta felur í sér hamfarir. Svarið er endurnýjanlegir orkugjafar – í þágu loftslagsaðgerða, orkuöryggis og til þess að útvega þeim hundruðum milljóna manna hreint rafmagn sem enn ekki njóta þess.
Þrefaldur ágóði er af orkugjöfunum endurnýjanlegu. Á sama tíma og verð á olíu og gasi slær met lækkar verð á endurnýjanlegri orku. Kostnaður við sólarorku og rafhlöður hefur lækkað um 85% á síðustu þremur áratugum. Kostnaður við vindorku hefur lækkað um 55%. Og fjárfestingar í endurnýjanlegri orku skapa þrisvar sinnum fleiri störf en jarðefnaeldsneyti.
Hættum að leika á fiðlu
Auðvitað eru endurnýjanlegir orkugjafar ekki eina svarið við loftslagsvánni. En kostirnir við að venja okkur af jarðefnaeldsneyti eru verulegir – ekki aðeins fyrir loftslagið. Orkuverð mun lækka og verða fyrirsjáanlegra og slíkt hefur góð áhrif á matvæla- og orkuöryggi.
Þegar orkuverð hækkar hækkar verð á mat og öðrum vörum að sama skapi. Þess vegna ættum við öll að geta samþykkt að skjótrar byltingar í endurnýjanlegum orkugjöfum er þörf og við ættum að hætta að leika á fiðlu á meðan framtíðin brennur.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 30. júní 2022.