Í Viðskiptablaðinu í morgun veltir Óðinn því fyrir sér hvort Guðmundur Ingi Guðbrandsson stýri enn umhverfisráðuneytinu, þó að minnsta kosti að nafninu til sé Guðlaugur Þór Þórðarsson titlaður umhverfisráðherra.

Óðinn fjallar um tvö mál. Annað eru Landmælingar Íslands, sem voru að mati Guðlaugs Þórs árið 2015 ónauðsynleg stofnun.

Eins fjallar Óðinn um niðurgreiðslu á rafbílum. Hugmyndafræðin við þá niðurgreiðslu, sem er mikið umhugsunarefni í ljósi hallareksturs ríksins, er í anda Vinstri grænna ef marka má frétt Morgunblaðsins um málið, sem ekki hefur verið andmælt.

Hér á eftir er brot úr byrjun pistilsins en áskrifendur geta lesið pistilinn í heild sinni hér.

Víðáttuvitleysa í boði Guðlaugs Þórs

Guðlaugur Þór Þórðarson svaraði pistli Óðins, sem nefndist Er þingmaðurinn Guðlaugur sami maðurinn og Guðlaugur ráðherra?, á dögunum í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu.

Óðinn fagnar því að ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafi dug í sér til að svara fyrir sig. En við svarið er ýmislegt að athuga.

Í fyrsta lagi svaraði ráðherrann Guðlaugur Þór því ekki hvort hann væri sammála eigin ræðu á Alþingi frá fyrir átta árum, um að Landmælingar Íslands væru gagnslaus stofnun.

***

Þekkingarskortur hvers?

Guðlaugur Þór sakar Óðinn um þekkingarskort þegar kemur að sameiningum stofnana sem heyra undir umhverfisráðuneytið.

Hér á eftir fara sjónarmið Guðlaugs Þórs í aðsendu greininni og gerir Óðinn ráð fyrir að Guðlaugur Þór sé enn sammála sjálfum sér þar sem aðeins tvær vikur eru síðan hann skrifaði skammarbréfið til Óðins:

Það er með ólíkindum að það hafi farið fram hjá Viðskiptablaðinu að ég mun á þessum þingvetri leggja fram frumvörp þar sem stofnunum sem heyra undir ráðuneytið verður fækkað verulega. Þar er m.a. gert er ráð fyrir að Landmælingar Íslands heyri sögunni til. Lögbundnum hlutverkum stofnunarinnar verður sinnt áfram í þeirri stofnun sem tekur við og tryggt að stofnunin sé ekki í samkeppnisrekstri.

Í svarinu staðfestir Guðlaugur Þór að hann sé ósammála sjálfum sér og ræðu sinni fyrir átta árum. Og það er rangt að Landmælingar Íslands heyri sögunni til, heldur er eina breytingin sú að stofnunin verður rekin undir nýju heiti. Stofnunin lifir því góðu lífi þó í formið verði annað.

Óðinn vissi af þessum sameiningaráformum. En þau áform skipta ekki nokkru einasta máli um umfjöllunarefni Óðins því það er ekki ætlunin að fækka verkefnum þessara tíu stofnanna sem eiga að sameinast í þrjár. Það sést ágætlega á matinu á fjárhagslegum áhrifum.