Í síðustu Alþingiskosningum var spurt: Er ekki best að kjósa bara Framsókn? Spurningin féll í kramið hjá kjósendum.

Viðreisn virðist hafa dregið af þessu einhvern lærdóm. Flokkurinn gengur til Alþingiskosninga undir kjörorðunum: Er ekki best að segja bara sem minnst?

Þetta sést ágætlega á gagnlegum kosningavita sem Viðskiptaráð kynnti til sögunnar fyrr í dag. Viðskiptaráð bað flokkana um að taka afstöðu til sextíu fullyrðinga um ýmis álitamál í stjórn- og efnahagsmálum í aðdraganda kosninga.

Viðreisn svarar ekki hvort flokkurinn vilji lækka fjármagnstekjuskatt eða skatt á lögaðila. Viðreisn þorir ekkert að segja um hvort rétt sé að leggja niður jafn gagnslausa stofnun og fjölmiðlanefnd. Flokkurinn hefur ekkert um hugmyndir um að færa viðmiðunarmörk í samrunamálum til samræmis við Norðurlönd.

Flokkurinn er ekki til að segja hvort að bann við innflutningi á jarðefnaeldsneytisbílum sé góð hugmynd. Flokkurinn skilar auðu þegar kemur að afstöðu til þess hvort kærunefnd húsamála eigi ekki að geta breytt leiguverði í leigusamningum eins og innleitt var í lög fyrir nokkru.

Hærri bankaskatt og kaþólskari en páfinn í loftlagsmálum

En flokkurinn er hins vegar fylgjandi hækkun bankaskatts þó svo að það hafi ekki aðrar afleiðingar en að hækka vaxtaálag á lánakjör heimila og fyrirtækja. Þá er flokkurinn einnig hlynntur því að ganga lengra en Evrópu­sam­bandið í lofts­lags­málum og vill halda í jafn­launa­vottun, ólíkt öðrum flokkum á hægri ásnum.

Gervigreind og hundahald

© rawpixel.com (rawpixel.com)

En þó svo að Viðreisn hafi ekki afgerandi stefnu í ofangreindum smámálum hefur flokkurinn látið stóru málin sig varða á kjörtímabilinu. Þannig hafa flokksmenn bent á að gervigreindin sé komin til að vera og sjá bæði tækifæri og áskoranir í þeim efnum. Þá kæmi það ekki Tý á óvart ef flokkurinn sé hlynntur hundahaldi – í dreifbýli, og gefi engan afslátt á þeirri skoðun sinni.

Fulltrúar Viðreisnar þreytast ekki á að segja kjósendum að flokkurinn sé frjálslynt hægri sinnað afl í íslenskum stjórnmálum. Týr telur greinilegt að Viðreisnarfólk leggi allt annan skilning í frjálslyndi en fólk gerir almennt.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.