Það er óhætt að segja að Viðskiptaráð hafi tekist að hrista upp í hlutunum í sumar. Fyrir nokkrum vikum tókst Birni Brynjólfi Björnssyni og hans fólki að móðga Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra með því að gefa nýsamþykktum húsaleigulögum falleinkunn í mati Viðskiptaráðs á efnahagslegum áhrifum þeirra þingmála sem voru samþykkt á vorþingi.
Nú hefur Viðskiptaráði tekist að reita kennarastéttina og Ásmund Einar Daðason barnamálaráðherra til reiði.

Viðskiptaráð gagnrýnir ástand menntamála og leggur til að undið verði ofan af þróuninni meðal annars með því að taka upp samræmd próf í grunnskólum að nýju. Í stað þess að svara gagnrýni ráðsins efnislega lætur barnamálaráðherrann duga að segja málflutninginn „hjákátlegan“ og „óásættanlegan.“

Illugi Jökulsson, maðurinn sem bindur miðjuna saman í liði góða fólksins á samfélagsmiðlum, er ekki síður málefnalegur í gagnrýni sinni. Hann vill einfaldlega banna fjölmiðlum að segja frá starfi Viðskiptaráðs. Hrafnarnir minna annars á að Viðskiptaráð hefur komið að rekstri menntastofnana á Íslandi í meira en öld og því ætti einhver þekking að vera á málaflokknum innan ráðsins.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 24. júlí 2024.