Það blæs ekki byrlega í Kauphöllinni þessi dægrin. Veltan er lítil og gengi hlutabréfa virðist bara þokast í eina átt – niður á við. Lækkanir á gengi Alvotech undanfarna mánuði kom illa við marga gíraða fjárfesta og veðkallar hafa verið á ferðinni um allar koppagrundir.
Þeir sem hrafnarnir tala við reglulega telja mikla brotalöm hafa orðið á verðmyndun á markaði undanfarin misseri og fátt benda til þess að það breytist í bráð. Á sama tíma hefur mikið stuð verið á erlendum hlutabréfamörkuðum. Þó svo að raunvextir séu í hæstu hæðum þá er fátt sem bendir til þess að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og hans fólk beiti sér fyrir vaxtalækkunum á næstunni.
Í ljósi þessa velta hrafnarnir fyrir sér hvort þróunin muni leiða til þess að almennir fjárfestar verði afhuga markaðnum. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í mars þá eru um þrjátíu þúsund Íslendingar sem eiga hlutabréf í Kauphöllinni.
Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar virðist að minnsta kosti vera á þeirri skoðun að almenningur eigi ekkert erindi í Kauphöllina. Það endurspeglast í því að hann stóð fyrir lokuðum fundi með sérvöldum fjárfestum um verðmætasköpun. Skilaboðin með því eru skýr: Kauphöllin er okkar mál og kemur almenningi ekki við.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.