Týr starfar eins flestir vita við öryggismál – heildstæðar öryggislausnir fyrir dauðlega menn og æsi og allt það. Það er meðal annars vegna þessara starfa að Týr er meðlimur í VR – verkalýðsfélagi millistéttarinnar þar sem miðgildi launa félagsmanna er kringum 800 þúsund krónur á mánuði.

Rétt eins og aðrir félagsmenn fékk Týr sent heim til sín VR-blaðið í síðustu viku. Það var undarleg sending svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Í blaðinu er fjallað um kröfu VR um enn frekari styttingu vinnuvikunnar í komandi kjarasamningum. En það var ekki sú vanhugsaða krafa sem vakti athygli Týs við lestur blaðsins. Það gerði aftur á móti innblásinn heimsósómabragur sem Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR birti í blaðinu.

Skrifin líkjast einn og helst einhverju sem gervigreind hefði látið frá sér hefði hún verið beðin að skrifa grein í anda Donald Trump og Enver Hoxha um stöðu efnahagsmála hér á landi. Þarna á Týr við gjaldfrjálsu gervigreindina en ekki þessa sem greiða þarf fyrir aðgang að.

Ragnar og "litla þjófríkið"

Í grein sinni lýsir Ragnar Íslandi sem „litlu þjófríki“ vegna þess að Seðlabankinn fellst ekki á skoðun hans að raunvextir eigi að vera neikvæðir. Þá sakar hann Seðlabankann og stjórnvöld fyrir að standa fyrir „þjófnaði aldarinnar“. Ragnar skrifar:

„Af hverju að banna verðtryggingu núna? Verðtryggingu sem kemur fólkinu til bjargar? Ef verðtrygging væri ekki valkostur í þessu árferði þá væru stjórnvöld, Seðlabankinn og fjármálakerfið á neyðarfundum við að verjast greiðslufalli bankanna og koma í veg fyrir uppþot á Austurvelli. Það er einmitt vegna yfirvofandi flótta almennings yfir í verðtryggða umhverfið að stjórnvöld og Seðlabankinn geta hallað sér aftur, vitandi að þjófnaður aldarinnar er við það takast.“

Og enn fremur:

„Þetta er mannanna verk og hér er verið að framkvæma eina stærstu eigna- og tekjutilfærslu Íslandssögunnar, og er þá hrunið 2008 tekið með. Þess vegna er komið að skuldadögum og þess vegna verður að fara fram uppgjör. Uppgjör sem mun ekki fara fram með kurteisislegu samtali yfir tebollum í stjórnarráðinu. Heldur uppgjör sem mun kosta átök.“

Lygin um að stjórnmálin leysi vandann

Ekki nóg með þetta. Ragnar krefst skilyrðislauss stuðnings launþega þessa lands í einkaherferð sinni gegn öllum heimsins óréttlæti og að þeir hætti að taka mark á því sem hann kallar meginstraumsmiðla.

„Við þurfum að standa með forystufólki verkalýðshreyfingarinnar og sýna styrk okkar með órjúfanlegri samheldni og samstöðu. Við þurfum að hafna áróðri meginstraumsmiðla og vera óhrædd, sýna kjark og kaupa ekki lygina um að þetta sé okkur að kenna, lygina um að breytingar séu hættulegar, lygina um að þjófræðið sé okkur fyrir bestu, lygina um að stjórnmálin leysi vandann.“

Týr er forviða á þessum skrifum og veltir fyrir sér að ekki fleiri hafi tekið eftir því að Ragnar er farinn að kröfur hans verði til lykta leidd á vettvangi stjórnmálanna. Týr veltir fyrir sér hvert maðurinn eiginlega að fara með þessu? Hann veltir fyrir sér hvort að þessi skrýtnu skrif Ragnars eigi mikinn hljómgrunn hjá þeim launþegum sem eru í VR.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.