Finnbjörn A. Hermannsson forseti Alþýðusambands Íslands er ekki enn kominn í jólaskap.

Hrafnarnir sáu það strax af lestri greinar sem hann birti á heimasíðu ASÍ í vikunni. Þar segir hann fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár endurspegla firringu ráðamanna. Hrafnarnir gætu fallist á það sjónarmið ef gagnrýnin fælist í því að leggja fram fjárlög sem gera ráð fyrir tæplega 50 milljarða halla á verðbólgutímum. Sennilega verður hallinn nær 100 milljörðum þegar allt kemur til alls.

Nei, gagnrýni Finnbjörns á ríkisstjórnina snýst um að hún hafi ekki hrint stefnumálum Samfylkingarinnar í framkvæmd: Að hækka skatta á fjármagnstekjur eldri borgara og fyrirtæki. Sérstaklega skatta á fyrirtæki sem Finnbirni og Samfylkingarfólki er illa við á borð við sjávarútvegsfyrirtæki og ferðaþjónustuna. Hrafnarnir benda á að staðreynd málsins sé sú að fyrirtækjaskattar á Íslandi eru háir og að auki er lagður á fjöldinn allur af sérsköttum á borð við bankaskatt og veiðileyfagjald. Hagsmunir almennings felast ekki í því að þessir skattar verði hækkaðir enn frekar

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. desember 2023.