Ísland á allt undir sterkum og fjölbreyttum útflutningi og milliríkjaviðskiptum. Velmegun og hagsæld hér á landi til framtíðar mun að miklu leyti ráðast af því hversu vel gengur að selja vörur og þjónustu til annarra ríkja. Greitt aðgengi að erlendum mörkuðum er þar algjört grundvallaratriði. EES-samningurinn veitir íslenskum fyrirtækjum aðgang að 450 milljóna íbúa markaði og innri markaði evrópska efnahagssvæðisins án hindrana. Við eigum að leggja metnað í EES og EFTA samstarfið og hafa skoðun og áhrif á hvernig það þróast.

Borið hefur á talsverðri gagnrýni í garð þessa mikilvæga alþjóðasamstarfs Íslands en hún stafar ekki síst af því að í gegnum EES er hluti af stóru og viðamiklu regluverki Evrópusambandsins (ESB) innleitt í íslensk lög. Þá hefur svokölluð gullhúðun, heimatilbúnar viðbætur við lágmarksreglur, verið algeng hér á landi og gert það að verkum að íslensk fyrirtæki búa oft við enn þyngra regluverk en samkeppnisaðilar á innri markaði EES. Gullhúðun dregur úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og er allra tap. Það græðir enginn á henni. Starfshópur utanríkisráðherra um aðgerðir gegn gullhúðun hefur nú skilað skýrslu og tillögum til úrbóta. Vonandi leiðir sú vinna af sér jákvæðar breytingar í þágu samkeppnishæfni Íslands. Við mat á áhrifum frumvarpa hefur til að mynda alveg skort að áhrif á samkeppnishæfni og atvinnulífið séu vegin og metin. Það er tímabært að horft verði til samkeppnishæfni Íslands við hvers kyns lagasetningu, hvort sem um ræðir innleiðingu á regluverki ESB í gegnum EES eða séríslensk lög.

Sem efnahagssvæði hefur Evrópa dregist hlutfallslega aftur úr öðrum stórum og mikilvægum efnahagssvæðum á síðustu árum, svo sem Bandaríkjunum. Þetta hefur leitt til tímabærrar umræðu um íþyngjandi regluverk og áhrif þess á atvinnulíf og efnahag í Evrópu. Það eru stórar áskoranir fram undan í EES samstarfinu, vegna breyttrar heimsmyndar, og við þurfum stöðugt að horfa til hagsmuna Íslands á þessum mikilvæga vettvangi. Sem formaður ráðgjafanefndar EFTA hefur undirrituð sett samkeppnishæfni rækilega á dagskrá. Ráðgjafanefnd og þingmannanefnd EFTA funda tvisvar á ári með utanríkis- og viðskiptaráðherrum EFTA ríkjanna og veita ráðgjöf og aðhald gagnvart EES og EFTA samstarfinu.

Það er mikil virkni í EFTA um þessar mundir og nýlega var undirritaður fríverslunarsamningur við Indland. Samningurinn er þýðingarmikill og í honum felast mikil tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf. Um er að ræða tímamótasamning sem tekur á fjölþættu samstarfi og viðskiptum við gríðarstórt hagkerfi sem mun vaxa hratt á næstu árum. Samningurinn nær meðal annars yfir vöru- og þjónustuviðskipti, hugverkarétt og fjárfestingar. Í síðustu viku var einnig undirritaður uppfærður fríverslunarsamningur við Chile. Á vettvangi EFTA er nú unnið að fríverslunarsamningi við MERCOSUR ríkin og fjölmörg önnur lönd og svæði. Allt mun þetta opna nýja markaði og greiða leiðina fyrir íslenskan útflutning á komandi árum.

Ísland á ríka hagsmuni á vettvangi EES og EFTA og við þurfum að vera virk í samstarfinu, hafa skoðun á þróun EES samningsins og fríverslunarsamningum, veita aðhald og huga að langtímahagsmunum. Við þurfum einnig að beita okkur gagnvart þróun regluverks ESB með virkri hagsmunagæslu. Þar er mikilvægt að stjórnvöld, þingið, atvinnulíf og aðilar vinnumarkaðarins gangi í takt. Greina þarf hagsmuni snemma í mótunarferli regluverks, huga að undanþágum þar sem það á við og standa með íslenskum hagsmunum.

Fram undan eru stór verkefni sem lúta að regluverki á sviði loftslags- og umhverfismála og iðnaðar heilt yfir. Í sumum tilfellum þarf að meta hvort skynsamlegt sé að taka ESB gerðir inn í EES-samninginn eða standa utan þeirra. Samtök iðnaðarins munu áfram standa vaktina í þeirri hagsmunagæslu í góðu samstarfi við íslensk stjórnvöld. EES-samningurinn er ekki fullkominn og það má taka undir margt í gagnrýni á hann. Þrátt fyrir það er hann mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands og kostir hans vega mun þyngra en gallar. Það skiptir miklu máli að unnið sé markvisst að hagsmunagæslu Íslands á vettvangi bæði EES og EFTA til framtíðar.

Höfundur er sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins og formaður ráðgjafanefndar EFTA.