Stóra planið sem Samfylkingin boðaði í kosningabaráttunni virðist vera að leita til virkra í athugasemdum eftir tillögum um hvernig hagræða megi í ríkisrekstrinum.

Það er kannski skiljanlegt. Ekki geta ráðherrar Samfylkingarinnar og Viðreisnar leitað til samflokksmanna sinna í borgarstjórn eftir gagnlegum ráðum í þeim efnum. Dagur B. Eggertsson, sérstakur stuðningsfulltrúi Samfylkingarinnar á Alþingi, hefur eðli málsins samkvæmt ekkert til málanna að leggja.

***

Því verr gefast heimskra manna ráð, sem fleiri koma saman. Þess vegna kom það Tý skemmtilega á óvart þegar hann renndi yfir eitthvað af þeim þúsundum tillagna sem virkir í athugasemdum hafa skilað inn í samráðsgátt stjórnvalda um hagræðingu í ríkisrekstrinum hversu skynsamlegar margar þeirra eru.

Augljóst er af þeim er að þorri Íslendinga gerir sér grein fyrir hinu mikla aðhaldsleysi sem einkennir ríkisreksturinn og þá sérstaklega þegar kemur að stjórnsýslunni. Enda snúa fjölmargar tillögur að hagræðingu í þeim efnum: fækka aðstoðarmönnum og bara setja ofvaxna stjórnsýslu í lífsnauðsynlega megrun.

En þessi æfing nýrrar ríkisstjórnar er auðvitað sýndarmennskan ein. Engar líkur eru á að eitthvað af þessum tillögum muni raungerast með neinum hætti. Komið hefur fram að þegar umsagnarfrestur rennur út mun sérfræðinganefnd fara yfir tillögurnar og greina þær. Það segir allt sem segja þarf um alvarleikann sem þarna býr að baki og aðstoðarmönnum ráðherra og framlög til stjórnmálaflokka munu ekki lækka í tíð þessarar ríkisstjórnar, svo vísað sé til nokkurra algengra ábendinga.

Í raun og veru minnir þetta á sýndarmennskuna sem er kringum hverfiskosningarnar í Reykjavík. Ný ríkisstjórn er ekki að sækja vatnið yfir lækinn.

***

Það er ekki bara spiklagið á stjórnsýslunni sem þarf að takast á við til að koma böndum á útgjöld ríkissjóðs. Meðal stærstu útgjaldaliðanna eru mennta- og heilbrigðismál. Fá þróuð ríki verja jafn miklu fé til menntamála og það íslenska. Árangurinn af því er átakanlega lélegur. Peningarnir fara í eitthvað annað en að kenna börnum. Í því samhengi má nefna að stöðugildum deildarstjóra og millistjórnenda í skólum hafi fjölgað um 95% frá árinu 2016 og það séu fyrst og fremst kennarar sem hafa mannað þessar stöður. Kerfið einkennist af millistjórnendaspiki. Sömu sögu er að segja af heilbrigðiskerfinu sem jafnframt gæti notið góðs af frekari aðkomu einkageirans.

Hefur einhver trú á því að kennarinn Ásthildur Lóa Þórsdóttir menntamálaráðherra og fyrrverandi landlæknir Alma Möller heilbrigðisráðherra komi til með að víkja af þeirri braut í ráðherratíð sinni?

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 8. janúar 2025.