Hröfnunum er annt um vistkerfi jarðarinnar og leggja að sjálfsögðu sitt af mörkum með því að flokka rusl í átta mismunandi tunnur, auk þess að taka Strætó á Bíllausa daginn. Nóg framboð er af fræðsluefni og viðburðum um umhverfismál fyrir ungmenni og fólk sem enn er á léttasta skeiði en hröfnunum finnst eldri borgarar hafa setið á hakanum þar, eins og í svo mörgum öðrum málaflokkum.

Sem betur fer hefur kallinu nú verið svarað en fyrr í dag tilkynntu ráðuneyti Guðlaugs Þórs Þórssonar og Guðmundar Inga Guðbrandssonar um vinnustofuna Eldra fólk og loftslagsmál – báðum til gagns sem haldin verður á morgun og hinn. Eins og segir í tilkynningu er málstofan á vegum samnefnds verkefnis sem er liður í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

„Verkefnið gengur út á að efla samstarf milli hópa eldra fólks á Norðurlöndunum á sviði umhverfismála og vísar yfirskrift þess annars vegar til þess mikla mannauðs og þeirrar víðtæku þekkingar sem býr í frísku fólki á eftirlaunaaldri og hins vegar til þess gagns sem þetta fólk getur gert í baráttunni gegn loftslagsbreytingum – í þágu komandi kynslóða,“ segir í tilkynningu ráðuneytanna.

Markmiðið sé að virkja fleira eldra fólk í loftslagsmálum „með því að skapa norrænan vettvang fyrir hugmyndaskipti, tengslanet, innblástur og góðar fyrirmyndir og stuðla um leið að varanlegri líkamlegri og andlegri heilsu þátttakenda“.

Þátttakendur Málstofunnar, sem fram fari á ensku komi frá öllum Norðurlöndum. „Dagskrá hennar samanstendur af stuttum erindum um starfsemi hópa eldri borgara frá Norðurlöndunum á sviði umhverfis- og loftslagsmála, pallborðsumræðum og hópavinnu auk kynnisferðar um Reykjanesskagann,“ segir í tilkynningunni.

Lokaafurð verkefnisins og málstofunnar verður svo að sjálfsögðu skýrsla „með grunnupplýsingum, samantekt frá málstofunni og ráðleggingum til stjórnvalda á Norðurlöndunum um það sem þau gætu gert til að styðja við starf aldraðra á sviði loftslagsmála“.

Fátt brennur heitar á eldri borgurum landsins en umhverfismál og því ljóst að skýrslunnar verður beðið með mikilli eftirvæntingu. Ein helsta framtíðaráskorun Íslands er einmitt öldrun þjóðar og því gott fyrir gránandi þjóð að vita af vinnustofunni þegar aldurinn færist yfir.

Jafnframt vonast hrafnarnir til að Norræna ráðherranefndin bjóði borgaryfirvöldum í Springfield að vera hluti af verkefninu. Þannig myndi skapast tækifæri til að fá einn fyrsta eldri borgara sem lét sig loftslagsmál og veðurfar varða, Abe Simpson, föður Homer Simpson, til að halda erindi á vinnustofunni.

Abe Simpson - loftslagsmál
Abe Simpson - loftslagsmál
© Samsett (SAMSETT)

Áhugasamir geta nálgast beint streymi frá vinnustofunni hér að neðan.

Huginn og Muninn er einn af föstum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.