Nýverið bárust fréttir af því að Gazprom, stærsti gasframleiðandi og -útflytjandi Rússlands, hefði á síðasta ári skilað rekstrartapi – og það í fyrsta sinn frá árinu 1999. Sögðu margir, meðal annars stærstu fréttamiðlar hins vestræna heims, þetta til marks um að viðskiptaþvinganir Vesturlanda væru nú byrjaðar að bíta á efnahag Rússlands. Ástæða tapreksturs Gazprom er hins vegar annars eðlis.

Skattar voru hækkaðir skarpt á Gazprom á liðnu ári, en heildarskattgreiðslur fyrirtækisins námu um það bil 20 milljörðum Bandaríkjadala, sem samsvaraði um þreföldu rekstrartapi ársins 2023. Það er því öðru fremur val rússneskra stjórnvalda að Gazprom skili svo miklu tapi. Það er ekki bara á Íslandi sem innviða- og orkufyrirtæki í opinberri eigu eru undin eins og tuska af hluthöfum sínum!

Vissulega er rétt að sala á jarðgasi frá Rússlandi til Evrópu hefur minnkað. Hins vegar selur Rússland Evrópu ennþá tæplega þriðjung þess magns sem var selt árið 2021. Markaðsverð jarðgass hefur hækkað það mikið í kjölfar viðskiptaþvingana að tekjur Rússlands af sölu olíu og gass halda sífellt áfram að aukast. Þannig var greint frá því nýlega að útflutningstekjur Rússlands af olíu og gasi hefðu aukist um meira en 80% milli ára á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024. Enda er það svo að hvers konar tilraunir til takmarkana á framboði leiða af sér hærra verð og þar af leiðandi auknar tekjur framleiðenda.

Ennþá sama olían

Stríðsbrölt Rússlands er dýrt í rekstri, en aðgerðir Vesturlanda til að skaða efnahag árásarmannanna hafa haft þveröfug áhrif og helst skaðað Evrópu öðrum heimshlutum fremur. Ásamt hækkandi gasverði hefur breytt viðskiptamynstur annarra orkugjafa einnig haft áhrif til verðhækkunar á endanlegum mörkuðum. Evrópa hefur að mestu tekið fyrir innflutning á hráolíu og hreinsuðum olíuvörum frá Rússlandi. Hins vegar hefur Rússland fundið aðra viljuga kaupendur að útflutningsvörum sínum, svo sem Indland. Því er ekki tilviljun að Indland hefur á síðastliðnum tveimur árum skipað sér sess sem stór eldsneytisbirgir Evrópu. Það er því að mestu nákvæmlega sama olían sem Evrópubúar dæla á farartæki sín og fyrir tveimur árum – þó hún hafi að vísu núna viðkomu á Indlandi eða Kína eftir að hún yfirgefur Rússland. Afleiðingin er einna helst hærra orkuverð til neytenda og þar með lakari lífskjör.

Eftirspurn olíu og gass er afar óteygin, enda getur hagkerfi heimsins ekki gengið án þessara langmikilvægustu orkugjafa allrar efnahagsstarfsemi. Full orkuskipti eru falleg framtíðardraumórar, en óravegu frá því að nást. Rússland er meðal allra stærstu orkuframleiðenda jarðar og heimurinn getur ekki verið án þeirrar orkugjafa sem þar er dælt úr jörðu, eins og ofangreint dæmi um uppgrip Indverja sýnir.

Aukið framboð er svarið

Áhrifaríkasta leiðin til að skaða efnahags Rússlands, ef vilji stendur raunverulega til þess, væri að auka framleiðslu og framboð olíu og gass. Það er eina, raunhæfa leiðin til lækka heimsmarkaðsverð hvaða hrávöru sem er, sama hvort fólki líkar betur eða verr.

Hins vegar er stefnumótun hins vestræna heims, einkum Evrópu, allt önnur. Efnahagslegir hvatar ríkjandi umhverfispólitíkur síðastliðinna 20 til 30 ára hafa verkað letjandi til olíuleitar og -framleiðslu. Með því að gefa eftir og útvista orkuframleiðslu til fjarlægra landa þar sem misyndislegir menn ráða ríkjum, gefur Evrópa eftir yfirráð efnahagslegrar útkomu sinnar.

Eftir olíukreppuna 1979 var ráðist í átak á Vesturlöndum við leit og framleiðslu á hrálolíu. Afleiðingin varð stóraukið olíuframboð á síðari hluta níunda áratugarsins, sem leiddi af sér skarpar verðlækkanir. Ein markverðasta afleiðing þess var fall Sovétríkjanna, sem öðru fremur treysti á útflutningstekjur af olíu og gasi. Þrátt fyrir hagkerfi Rússlands sé að mörgu leyti fjölbreyttara í dag en fyrir rúmum þremur áratugum, eru langmikilvægustu útflutningsafurðirnir hinar sömu. Handritið að áhrifaríkum efnahagsaðgerðum gegn Rússlandi liggur því fyrir og þurfum ekki að leita langt yfir skammt að því.

Höfundur er hagfræðingur.