Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi, er ágætis áminning um að Ísland er fámennt land. Hann steig í pontu á Alþingi á dög­unum og minnti þingheim á að vitleysingar hefðu sín réttindi.

Orðrétt sagði Guðbrandur: „Lýðræðið virk­ar þannig að þó að það sé vit­laus meiri­hluti, þá má hann búa til vit­laus lög.“

***

Týr getur svo sem fallist á þessa fullyrðingu Guðbrands. En þó svo að vitleysingar nái meirihluta á Alþingi getur það vart verið markmið í sjálfu sér að „búa til vitlaus lög“ eins og Guðbrandur orðar það.

Lýðræðisfyrirkomulagið felur ekki í sér að meirihlutanum á Alþingi sé falið alræði meðan á kjörtímabilinu stendur. Niðurstaða þingkosninganna veturinn 2024 var ekki að Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur Ingu Sæland fengju óskorað umboð til þess að umbylta íslensku samfélagið þó svo að stjórnarliðar tali oftar en ekki með þeim hætti. Samanlagt fengu þessir flokkar 50,4% atkvæða.

***

Hin þinglega meðferð mála er ákaflega mikilvæg í lýðræðisferlinu. Hún veitir minnihlutanum tæki­færi til að koma með að borðinu önnur sjónarmið sem kunna að vera uppi um áform meirihlutans og mögulegar afleiðingum stefnumótunar ríkis­stjórnarinnar hverju sinni. Hinni þinglegu meðferð er með öðrum ætlað að koma í veg fyrir að vitleys­ingar búi til vitlaus lög, svo að aftur sé vitnað til orðalags Guðbrands.

Þó svo að stjórnarliðar tali sumir hverjir um frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnu­vegaráðherra með sama hætti að fylgismenn ­Donalds Trump tala um „stóra fallega frum­varpið“ um umfangsmiklar skattalækkanir vestanhafs hefur hin þinglega meðferð afhjúpað hversu illa það var unnið. Útreikningar stemma ekki og engu er skeytt um efnahagslegar afleiðingar lögfestingar þess.

Málið snýst ekki um hvort hækka eigi veiðigjöld heldur um hversu mikinn skaða útfærslan í frumvarpinu mun valda á einum af grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar. Týr furðar sig á því hversu áhuga­lausir stjórnarliðar eru um þann þátt málsins.

Þeir hafa nóg að hugsa um í sumarfríinu.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. júlí 2025.