Þegar vitringurinn bendir á stjörnurnar horfir fíflið á putta hans. Þetta vita íslenskir Alþingismenn. Nánar tiltekið þau Sigmar Guðmundsson, Eiríkur Björn Björgvinsson, Grímur Grímsson, Guðbrandur Einarsson, Ingvar Þóroddsson, Jón Gnarr, María Rut Kristinsdóttir, Pawel Bartoszek, Víðir Reynisson, Arna Lára Jónsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Ólafur Adolfsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Sigurður Helgi Pálmason og Ingibjörg Davíðsdóttir.
Þetta ágæta fólk hefur nú rækilega minnt Tý á erindi sitt á Alþingi Íslendinga. Þetta fólk hefur beðið dómsmálaráðherra að skipa aðgerðahóp undir stjórn ríkislögreglustjóra um mat á helstu áhættuþáttum og skipulagningu aðgerða vegna almyrkva á sólu sem verður hinn 12. ágúst 2026.
Alþingismennirnir benda á að að almyrkvinn verði í ágúst 2026 og það sé einmitt á þeim tíma séu “gestakomur til landsins í hámarki”. Það er ekki nema von að þingmennirnir hafi af þessu áhyggur. Í þingsályktunartillögunni er meðal annars bent á að árið 2015 hafi 11.500 manns komið til Færeyja til að sjá almyrkva og “var þá ekki rými fyrir fleiri í landinu.”
Fram kemur í þingályktunartillögunni að reynsla annarra ríkja sýni það að fólk hafi tilhneigingu til þess að safnast á þeim stöðum þar sem að almyrkvi á sólu er sjáanlegur. Þetta eru mikil tíðindi enda brýna þingmennirnir fyrir dómsmálaráðherranum að huga að salernismálum og veitingaaðstöðu og minna á að ekki sé réttlætanlegt að draga engan lærdóm af fimmtíu ára afmæli lýðveldisins Íslands hérna um árið.
Og gleymum ekki umferðinni. Í tillögunni segir: “Einnig verður að hafa í huga að umferð að almyrkvanum loknum verður veruleg áskorun. Til viðbótar við þá sem ferðast samdægurs til að berja almyrkvann augum mun fólk sem er tímanlega komið á viðkomandi stað hugsa sér til hreyfings um leið og almyrkvinn er yfirstaðinn.
Með tillögu þessari er mælst til þess að Alþingi feli dómsmálaráðherra að skipa aðgerðahóp sem greini mögulegar sviðsmyndir vegna almyrkva á sólu sem verður hinn 12. ágúst 2026.”
Týr mun fylgjast spenntur með hvernig Þorbjörg Sigríður Guðlaugsdóttir leysir úr þessu flókna verkefni. Á sama tíma fagnar hann hinu brýna erindi ofangreindra þingmanna á Alþingi Íslendinga.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.