Að ýmsu þarf að huga við val og skráningu á vörumerkjum. Til viðbótar við hin almennu skráningarskilyrði vörumerkjalaga um að vörumerki þurfi að innihalda nægileg sérkenni og vera aðgreiningarhæf þá þarf vörumerkið eðli máls samkvæmt að vera grípandi og áhugavert.
Eitt af þeim atriðum sem vörumerkjalög mæla einnig fyrir um í þessu sambandi er að ekki megi skrá vörumerki sem eru andstæð lögum, stríða gegn allsherjarreglu, almennu siðgæði eða hafa sérstaka táknræna þýðingu.
En hvað þýðir þetta nákvæmlega? Framkvæmd og túlkun ákvæðisins er nokkuð rýr hér á landi, en síðari í greininni er fjallað um merki sem hefur verið synjað skráningu á þessum grundvelli hérlendis. Ákvæðið í íslensku vörumerkjalögunum er hins vegar í samræmi við sambærilegt ákvæði í vörumerkjatilskipun Evrópusambandsins og því áhugavert að skoða nánar framkvæmd þess á þeim vettvangi.
Um allsherjarreglu hefur Evrópudómstóllinn sagt að um sé að ræða staðlaða sýn á gildi og markmið sem skilgreind séu af viðkomandi stjórnvöldum og endurspegli vilja hins opinbera með tilliti til þess hvaða reglur eða venjur beri að virða í samfélaginu. Dómstóllinn hefur jafnframt sagt um almennt siðgæði að hugtakið vísi til grundvallar siðferðisgilda og viðmiða sem hvert samfélag fylgi á hverjum tíma. Það er því ljóst að hugtakið almennt siðgæði er matskenndara og viðbúið að það geti tekið breytingum frá einum tíma til annars hvað telst falla þar undir.

Framkvæmd innan ESB
Fyrir liggur að við beitingu ákvæðisins, bæði innan ESB og hér á landi, þarf ávallt að hafa í huga jafnvægið á milli tjáningarfrelsis eiganda umrædds vörumerkis og rétt almennings til að þurfa ekki að þola misvísandi, móðgandi og jafnvel ógnandi vörumerki. Framangreind nálgun var meðal annars staðfest af áfrýjunarnefnd Hugverkastofu ESB í máli frá árinu 2005, þar sem því var hafnað að skrá vörumerkið SCREW YOU, fyrir fatnað og tengdar vörur.
Ákvæðið sjálft er nokkuð víðtækt og býður upp á mjög matskennda túlkun. Framkvæmdin innan ESB er þess vegna nokkuð á reiki, en dæmi um vörumerki sem hefur verið hafnað skráningu á þessum grundvelli eru PUT PUTIN IN, MH17 og BIN LADIN. Þá hefur fjölda merkja sem innihalda tilvísanir til ólöglegra vímuefna verið hafnað, til dæmis merkin 420 og YES CANNABIS. Loks má nefna merki sem innihalda orðið fuck eða fucking, en dæmi um slík merki sem hefur verið synjað eru merkin Fuck of the Year, FUCKING STRONG COFFEE og JUST FUCKING GOOD WINE. Síðast nefnda vörumerkið er reyndar áhugavert að því leyti að skráning merkisins var samþykkt í Benelux löndunum svokölluðu, en synjað skráningu sem ESB vörumerki.
Um mitt ár 2024 var því endanlega hafnað af áfrýjunarnefnd Hugverkastofu ESB að skrá vörumerkið COVIDIOT, en sótt hafði verið um skráningu merkisins meðal annars fyrir borðspil, leikföng og tölvuleiki. Áfrýjunarnefndin rökstuddi niðurstöðu sína með því að þegar merkið væri notað í tengslum við leikföng og tölvuleiki væri verið að gera lítið úr einum banvænasta heimsfaraldri mannkynssögunnar á þann hátt sem teldist stríða gegn mannlegri reisn og viðurkenndum siðferðisreglum.

Leiðbeiningar um túlkun ákvæðisins
Með hliðsjón af því hversu matskennd spurningin er hvenær vörumerki telst brjóta gegn almennu siðgæði gaf Hugverkastofa ESB út leiðbeiningar í apríl 2024 sem ætlað er að samræma hvenær vörumerki teljast brjóta gegn allsherjarreglu og almennu siðgæði. Í leiðbeiningunum eru sett fram ýmis viðmið um hvernig meta skal vörumerki út frá umræddri reglu, þrátt fyrir að tekið er skýrt fram að ávallt þurfi að meta hvert einstakt tilvik út af fyrir sig og taka mið af tjáningarfrelsi eigenda vörumerkjanna. Þá þarf ennfremur að taka mið af því fyrir hvaða vörur og þjónustu vörumerkið óskast skráð fyrir. Í þeim tilgangi er að finna ýmis tilbúin dæmi sem er gagnlegt að skoða. Þannig er tekið dæmi um að vörumerkið KILL THEM ALL fengist að öllum líkindum ekki skráð sem vörumerki fyrir skemmtiefni ætlað börnum. Sama vörumerki fengist hins vegar mjög líklega skráð fyrir skordýraeitur. Að sama skapi var tilbúna vörumerkið FLY ME TO THE MOON (sjá mynd) tekið sem dæmi um merki sem fengist líklega skráð fyrir kynlífsleikföng en ólíklega fyrir barnaleikföng.
Framkvæmd á Íslandi
Framkvæmdin hvað þetta varðar hér á landi er ekki ítarleg, og raunar aðeins örfá tilvik þar sem vörumerkjum hefur verið synjað skráningu hér á landi á þessum grundvelli. Samkvæmt upplýsingum frá Hugverkastofunni hefur oftar komið til skoðunar að byggja synjun á þessum grundvelli en niðurstaðan orðið sú að byggja synjun á öðrum töluliðum vörumerkjalaga, til að mynda synja vegna skorts á sérkenni eða villandi eiginleika í vörumerkjum.

Á meðal þeirra örfáu tilvika hérlendis þar sem skráningu vörumerkja hefur verið synjað á þeim grundvelli að þau stríði gegn allsherjarreglu eða almennu siðgæði eru merkin HELLS ANGELS MC ICELAND, með vísan til þess að það væri stefna íslenskra stjórnvalda að starfsemi Vítisengla hefði í för með sér ógn við allsherjarreglu og almannaöryggi og að starfsemin sem merkið ætti að auðkenna væri talin vera skipulögð brotastarfsemi. Þá var því synjað að skrá merkið CANNABIA á þeim grundvelli að merkið væri til þess fallið að valda hneykslan. Loks var því synjað að skrá orðmerkið KRAKK fyrir sælgæti, en skráningin var á þeim tíma talin geta valdið hneykslan og hugsanlega sært siðgæðisvitund fólks. Í því samhengi var einnig rætt um að markaðssetning sælgætis beindist oft að börnum sem þótti styðja beitingu ákvæðisins.

Af framangreindu er ljóst að túlkun á því hvenær vörumerki teljast brjóta gegn almennu siðgæði er nokkuð huglægt og matskennt. Viðmið geta verið ólík á milli landa og þá virðist einnig óhjákvæmilegt að venjur og viðhorf almenning taki breytingum frá einum tíma til annars. Það verður áhugavert að fylgjast með þróun hvað þetta varðar í framtíðinni og hvort þolmörk almennings og skráningaryfirvalda þróist í þá átt að færast ofar eða neðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri GH Intellectual Property og lögmaður á LEX.