„Það eru í mér tveir menn, skáldið og dóninn, og þeir talast aldrei við.“ Þessi orð lét Einar Benediktsson eitt sinn falla.

Tý sýnist að það búi einnig tveir menn í Willum Þór Þórssyni. Annar er þingmaður sem er hlynntur sölu einkaaðila á áfengi og skilur hversu fráleitur rekstur ÁTVR er. Hinn er heilbrigðisráðherra sem er á móti frumvarpi dómsmálaráðherra um netsölu á áfengi og vill standa vörð um ÁTVR og herða enn frekar á reglum um áfengissölu. Þessir menn talast heldur ekki við.

***

Þingmaðurinn Willum var einn flutningsmanna frumvarps um aukið frelsi í sölu áfengis hér á landi á Alþingi árið 2015. Hann flutti afbragðsgóða ræðu um málið.
Þar sagði Willum meðal annars að aukið frjálsræði í þessum efnum myndi spara ríkinu þrjá milljarða á ári ef ÁTVR yrði lagt niður. Þá sagði Willum:
„Hvert sem fyrirkomulagið verður á sölu og dreifingu er það viðvarandi verkefni að sinna lýðheilsu og vissulega er takmarkað aðgengi að áfengi eitt þeirra atriða. En það er ekkert í umræðunni sem hefur með óyggjandi hætti sýnt fram á að það eitt að breyta sölufyrirkomulaginu valdi þeirri kollsteypu sem stundum er gefin til kynna heldur fer það viðfangsefni aldrei frá okkur að stuðla að lýðheilsu og vinna að skaðaminnkun af völdum áfengisdrykkju.“

Og enn fremur:
Hér hafa til að mynda andstæðingar frumvarpsins beitt lýðheilsurökum. En eins og fram kemur í áliti meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar síðast þegar málið var til umfjöllunar þá þarf lýðheilsa alls ekki að vera andstæða viðskiptafrelsis né er hægt að halda því fram að flutningsmenn þessa frumvarps séu andstæðingar lýðheilsu.

***

Willum ráðherra er á öndverðum meiði. Þegar fjölmiðlar spurðu hann út í sölu Hagkaups á áfengi svaraði hann:
Nú verð ég auðvitað sem heilbrigðisráðherra að horfa á þetta út frá lýðheilsu og út frá stóra samhenginu. Við erum með einkasölu, ÁTVR, af ástæðu vegna þess að það þykir æskilegt form með þessa vandmeðförnu vöru í lýðheilsulegu tilliti og það ber að verja það.“

Týr telur tímabært að þingmaðurinn og ráðherrann ræði saman um þessi mál. Jafnvel yfir einum köldum.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 18. september 2024.