Í Bændablaðinu sem kom út 15. desember er að finna áhugaverða fréttaskýringu úr smiðju Harðar Kristjánssonar um stórmál sem varðar alla Íslendinga með einum eða öðrum hætti og koma til með hækka raforkuverð til þeirra notenda sem kjósa að vekja athygli á þeirri augljósu staðreynd að framleiðsla þeirra nýtir hvorki kjarnorku né jarðefnaeldsneytis þegar kemur að rafmagnsnotkun. Sem og þá sem vilja lágmarka kolefnisfótspor rekstrarins. Í ljósi þess er dæmalaust að málið hafi ekki hlotið meiri umfjöllun í fjölmiðlum.

Í stuttu máli snýst málið um að Landsvirkjun tilkynnti sölufyrirtækjum á heildsölumarkaði með raforku fyrir nokkru að frá og með áramótum myndu upprunaábyrgðir raforku ekki fylgja endurgjaldslaust með þeirri orku sem fyrirtækin kaupa. Eins og segir í grein Bændablaðsins:

Afsláttur verður veittur fyrir kaupum upprunaábyrgða í ár og munu fyrirtækin hafa val um framseljanlegar ábyrgðir á markaðsverði eða óframseljanlegar á föstu verði. Afslátturinn er tímabundinn og ljóst að þessi gjaldtaka fyrir „syndaaflausnir“ vegna raforkunotkunar muni leiða til hækkunar á raforkuverði sem virðist greinilega vera markmiðið.“

Sem fyrr segir þá er þarna verið að hækka raforkuverð til þeirra fyrirtækja sem vilja lækka kolefnisfótspor sitt og sýna fram á sjálfbærni framleiðslunnar með sérstakri vottun. Með öðrum orðum er verið að flytja fé frá framleiðslufyrirtækjum til ríkiseinokunarfyrirtækis að ástæðulausu.

Rótin að þessu öllu er þátttaka íslenskra stjórnvalda í kerfi sem komið var á til að búa til fjárhagslegan hvata fyrir „skítug“ ríki sem framleiða raforku úr jarðefnaeldsneyti til að nýta endurnýjanlega orkugjafa í auknu mæli. Það er greinilegt að þetta kerfi hefur leitt íslenskan orkumarkað í ógöngur. Í fréttaskýringu Bændablaðsins segir:

Það hefur vakið undrun landsmanna að allt frá 2011 hafa íslensk orkufyrirtæki selt hreinleika­ eða upprunavottorð á raforku til fyrirtækja Evrópu. Í skjóli þessara vottorða hafa erlend fyrirtæki skreytt sig og segjast nota hreina orku sem samt er framleidd að meirihluta með kolum, olíu, gasi og kjarnorku. Erlend fyrirtæki hafa því notað íslensku upprunavottorðin til að blekkja sína neytendur. Í staðinn hafa Íslendingar þurft að taka á sig á pappírunum losun á gróðurhúsalofttegundum og geislavirkum úrgangi vegna framleiðslu raforku í Evrópu.

Þannig sagði Orkustofnun (OS) að á síðasta ári hafi íslensk raforka verið að 24% hluta framleidd með kjarnorku og 13% með jarðefnaeldsneyti, sem er í raun ósatt. Þá sagði OS að einungis 63% raforkunnar hér á landi hafi verið framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Verst voru áhrifin af sölu syndaaflausna árið 2018 þegar Orkustofnun sagði að einungis 11% raforku á Íslandi væri framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Annað, eða 89%, var sagt framleitt með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Öll raforka sem framleidd er á Íslandi er notuð innanlands. Meðaltal áranna 2011 til 2021 sýndi endurnýjanlega orkuhlutann aðeins vera 39%. Þegar búið er að selja syndaaflausnir fyrir meira en 60% af orkunni úr landi, er þá líka hægt að selja Íslendingum syndaaflausnir vegna sömu orku?

Og stærsti brandarinn er auðvitað sá öll raforka á Íslandi er framleidd með endurnýjanlegum hætti enda bannar lagabókstafurinn beinlínis að virkjunarleyfi sé veitt til annars en nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 5. janúar 2023.