Augu skákáhugafólks hvíla nú öll á Heimssýningunni í Dubaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þar hefst í dag einvígi ríkjandi heimsmeistara, Magnusar Carlsen, og áskorandans frá Rússlandi, Ian Nepomniachtchi eða Nepo eins og hann er löngum kallaður. Á næstu vikum verða tefldar 14 skákir, nema til þess komi að annar keppandinn nái 7 og hálfum vinningi áður en þessum 14 skákum verður lokið.  Einvígið stendur til 14. desember og er spennan farin að magnast á Heimssýningunni.

Nepomniachtchi mun hefja leik með hvítan

„Ég er minna hungraður. Ég held maður verði það alltaf þegar maður er að spila um heimsmeistaratitilinn í fimmta skiptið, frekar en fyrsta," lét Carlsen hafa eftir sér í blaðaviðtali í fyrradag.

Hvort þetta sé einhvers konar taktík hjá Carlsen í hans síðasta blaðaviðtali áður en hann berst um að halda titli sínum skal látið ósagt, en þrátt fyrir þessi ummæli má búast við því að heimsmeistarinn gefi ekki þumlung eftir.

Í gær kom svo í ljós að Nepo muni hefja einvígið með hvítan en keppendurnir eru jafnaldrar og eiga sér langa sögu. Aðdáendur Nepo geta yljað sér við þá tilhugsun að í klassískri kappskák hefur hann yfirhöndina gegn heimsmeistaranum. Hefur hann unnið fjórar skákir, Carlsen eina og átta lokið með jafntefli.

Carlsen lét einnig hafa eftir sér í viðtali í vikunni að hann velti sér ekki mikið upp úr þeirri tölfræði. „Ef hún gefur honum aukið sjálfstraust, gott fyrir hann."

Tvær milljónir evra í verðlaunafé

Fyrirkomulag einvígisins er þannig að tefldar verða 14 kappskákir. Stórmeistararnir hafa 120 mínútur hvor til að ljúka fyrstu 40 leikjunum en þá bætast við 60 mínútur fyrir næstu 20 leiki. Eftir 60 leiki bætist korter við en einnig bætast 30 sekúndur við tímann við hvern leik þaðan af.

Hafi úrslitin ekki ráðist að 14 skákum loknum verða tefldar fjórar atskákir, 25 mínútur á hvorn keppanda auk 10 sekúndna fyrir hvern leik. Ef jafnt verður að atskákum loknum munu keppendurnir keppa tvær hraðskákir með skiptum litum. Hvor um sig fær þá fimm mínútur á alla skákina auk þess að þrjár sekúndur bætast við eftir hvern leik. Verði jafnt að þeim loknum verður annað slíkt sett teflt. Verði enn jafnt munu þeir tefla bráðabanaskák eftir svokölluðum „armageddon" reglum. Þar fær hvítur fimm mínútum gegn fjórum mínútum hjá svörtum. Svörtum dugir jafntefli til sigurs en hvítur verður aftur á móti að vinna.

Verðlaunaféð er tvær milljónir evra, sigurvegarinn fær 60% af verðlaunafénu en mótherjinn 40%. Ef jafnt verður að 14 leikjum loknum og tefla þarf til þrautar þá lækkar verðlaunafé sigurvegarans um 5% en mótherjans hækkar um sömu prósentu.

Yfirburðir Carlsen

Verði úrslitin ekki ráðin að klassísku kappskákunum loknum opnast góður möguleiki fyrir Nepo til þess að skrifa nýjan kafla í sögu stórveldis rússneskra stórmeistara. Í ljósi þess að Nepo hefur sögu um að vera afar sterkur í hraðskák þá er það síður kostur fyrir Carlsen að draga einvígið yfir í styttri skákir.

Hins vegar gafst það vel fyrir ríkjandi heimsmeistara í einvígunum gegn Sergey Karjakin og Fabiano Caruana þar sem að hann sigraði frekar auðveldlega í báðum tilvikum að klassískum skákum loknum. Þessi leið, ólíkt fyrri einvígum er varla fær í þessu tilfelli í ljósi þess hversu sterkur Nepo er í styttri skákum. Þess má geta að sérfræðingar hafa þess vegna flest allir, ef ekki allir, spáð því að úrslitin ráðist í lengri skákunum.

Einn af hápunktum Heimssýningarinnar

Heimssýningin, sem átti að fara fram á síðasta ári en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins, þykir sú allra glæsilegasta og nam kostnaður hennar 7 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 918 milljörðum króna.

Bundnar eru vonir við að Heimssýningin verði mikil lyftistöng fyrir ferðamannaiðnaðinn í landinu, sem byggður hefur verið upp með það að markmiði að tryggja áframhaldandi tekjustreymi eftir að olíuauðlindir furstadæmisins tæmast. Stjórnvöld furstadæmisins reyna því allt hvað þeir geta til að treysta þennan burðarstólpa efnahagskerfisins.