Kvennaknattspyrnan hefur vaxið hratt á síðustu árum. Heildartekjur þeirra tólf liða sem léku í efstu deild kvenna í knattspyrnu á Englandi, Women Super League, fjórfölduðust á árunum 2017-2022.
Eins og fótboltagreinandinn Swiss Ramble greindi frá, og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær, er mikill munur á tekjum ensku liðanna og hefur bil myndast á milli fjögurra arðbærustu liðanna og hinna liðana.
Í greiningu Swiss Ramble er tekjubilið m.a. rakið til þeirrar fjármagnsinnspýtingar sem kvennaliðin hafa fengið frá karlaliðum félaganna, og hafa fjögur stærstu liðin sérstaklega notið góðs af þeirri innspýtingu. Þannig voru um 75% af tekjum kvennaliðs Arsenal í formi styrks frá karlaliðinu, eða sem nemur 5,1 milljón punda. Deloitte áætlar að styrkirnir sem kvennaliðin fengu hafi numið samtals 13 milljónum punda á tímabilinu 2021/22, jafnvirði 40% af heildartekjum liðanna í deildinni.
Þegar styrkir frá karlaliðum eru teknir út fyrir sviga er Arsenal, og hin ensku liðin, mun neðarlegra á lista yfir arðbærustu kvennalið Evrópu, og er Barcelona þá tekjuhæsta lið Evrópu með 6,5 milljónir punda í tekjur. Á eftir Börsungum koma Manchester-liðin tvö og Paris-Saint Germain.
Fjallað er nánar um vöxt kvennaknattspyrnunnar í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun, 11. ágúst.