New York hefur alltaf verið þekkt fyrir ótrúlega matarupplifun en borgin er hlaðin hágæða ítölskum veitingastöðum og finnast pizzastaðir á hverju götuhorni. Pylsuvagnar standa fyrir utan framandi veitingastaði frá öllum heimsálfum og er nánast alltaf opið fyrir viðskiptavini.
Nýlega var þó kynnt til leiks ein glæsilegasta matarupplifun sem borgin býður upp á. Hún á sér stað í One World Trade Center-byggingunni í 380 metra hæð og kostar um þrjú þúsund dali (rúmlega 420 þúsund krónur).
Síðan 2015 hefur byggingin boðið upp á frábært útsýni af borginni frá 102. hæð. Milljónir ferðamanna hafa horft út um glugga byggingarinnar en fáir hafa notið útsýnisins frá einkarýminu Aspire. Hingað til hefur verið hægt að leigja út rýmið fyrir brúðkaup og fyrirtækjaviðburði en nú verður einnig hægt að bóka það fyrir kvöldverð.
„Við viljum að allir fái tækifæri til að upplifa kvöld á toppi heimsins,“ segir Amber King, yfirmaður viðburða hjá One World Observatory.
Þeir sem hafa efni á þessum dýra kvöldverði geta notið útsýnis af miðbæ Manhattan, Frelsisstyttunni, Ellis Island, Liberty Island, Governor‘s Island, New Jersey, Staten Island og Brooklyn.
„Við bjóðum upp á einkafylgd, skipulagðan lagalista, einkakokka og þjónustufólk, ásamt flösku af Dom Pérignon og fyrir fram valinna fjögurra rétta máltíð að eigin vali með vínþjónustu. Rýmið er skreytt með rauðum rósum og fjölda kerta til að veita eftirminnilegt kvöld.“