Vinsældir silungsveiðinnar hafa aukist mikið hin síðari ár. Ef til vill er það engin furða því bæði er hún skemmtileg og margfalt ódýrari en laxveiðin. Við skyggnumst inn í silungsveiðiheiminn með hinum þaulreynda silungsveiðimanni Árna Kristni Skúlasyni.
Árni Kristinn er 27 ára Sunnlendingur, sem alinn er upp á bökkum Brúarár í Árnessýslu. Hann hefur veitt síðan hann var ungur drengur og þó hann stundi laxveiði af og til þá hefur silungsveiðin átt hug hans allan og hefur hann sem dæmi sinnt leiðsögn í silungsveiði um árabil. Við spurðum Árna Kristin nokkurra spurninga um silungsveiðina og þá sérstaklega hvernig nýliðar eigi að snúa sér hafi þeir hug á að egna fyrir silungi.
Hver er helsti kosturinn við silungsveiðina?
„Fjölbreytnin er það sem heillar mig mest. Hægt er að fara í vötn sem liggja hlið við hlið en eru samt gjörólík. Í silungsveiðinni er verið að eltast við fisk sem er að éta og oft eru silungar aðeins að leita að sérstakri tegund skordýrs og þá reynir á fluguvalið. Síðan er það auðvitað aðgengið, flest silungsveiðisvæði eru opin frá 1. apríl til loka september þannig að úr nægu er að velja.
Ef veiðimaður á höfuðborgarsvæðinu er með Veiðikortið og ætlar að skreppa í veiði eftir kvöldmat þá getur hann farið í Elliðavatn, Vífilsstaðavatn, Hólmsá, Þingvallavatn, Kleifarvatn og Úlfljótsvatn, allt fjölbreytt vötn sem bjóða upp á mismunandi veiði. Síðan að lokum finnst mér frábært að geta náð mér í ferskan fisk í soðið hvenær sem mér hentar, það er fátt betra en nýveiddur silungur."
Fjölbreytnin og frelsið
Hvaða munur er á laxveiði og silungsveiði?
„Þetta er fyndin spurning, og í raun svaraði ég henni vel í síðasta svari. Fjölbreytnin og frelsið til að fara hvenær sem manni hentar er stóri munurinn. Hægt er að fara í Vífilsstaðavatn og reyna við bleikju með þurrflugu og litlum púpum yfir daginn og samdægurs er hægt að skjótast í Þingvallavatn og eltast tröllin þar með stórum straumflugum. Þegar kemur að veiðinni sjálfri þá snýst silungsveiðin um að egna fyrir fiskinum með því að nota flugur sem líkjast fæðunni sem silungurinn er að éta hverju sinni í staðinn fyrir að reyna að pirra hann eins og laxinn. Á ensku er talað um „match the hatch” þegar verið er velja agn fyrir silung."
Finnst þér vinsældir silungsveiði hafa verið að aukast?
„Já, silungsveiðin er alltaf að vera vinsælli með hverju árinu og finnst mér frábært að sjá hversu margir ungir veiðimenn eru að stíga fram í veiðinni. Samfélagsmiðlar eru öflugir og eru margir íslenskir veiðimenn með þúsundir fylgjenda á bæði Facebook og Instagram. Síðan er það auðvitað verðlagið, það er og hefur alltaf verið ódýrara að fara að veiða silung heldur en lax. Það er hægt að gera veiðina dýrari með að fara í Laxá í Mývatnssveit eða Laxárdal en það er alltaf ódýrara en laxveiðin."
Búnaðurinn
Hvað þarf til að byrja í silungsveiði?
„Gott er að taka fram að fisknum er alveg sama hvað búnaðurinn þinn kostar, í grunninn þarftu bara stöng, hjól, línu, flugur og veiðileyfi. Margar veiðibúðir selja byrjandapakka og mæli ég með að kíkja á úrvalið og velja það sem þér líst best á og ekki spara of mikið þegar kemur að stöng, línu og vöðlum, þar sem það er búnaðurinn sem þú kemur til með að nota mest.
Fyrir byrjendur í venjulegri silungsveiði er best að vera með stöng fyrir línu 5 til 6 og setja á hana flotlínu. Það er mjög mikilvægt að vera með frammjókkandi taum eða kónískan taum, eins og hann er oft kallaður. Slíkir taumar hafa reynst mér langbest."
Hvaða flugur hafa reynst þér best?
„Þegar ég er að veiða bleikju nota ég langmest púpur, bæði þyngdar og óþyngdar. Mér finnst skemmtilegra að veiða urriðann á straumflugur, þar sem hann er mjög agressífur og tekur oft með miklum látum. Valið fer mikið eftir hvar ég er að veiða, ef ég er í Elliðavatni nota ég mest púpur en ef ég fer að eltast við urriðann í Þingvallavatni nota ég straumflugur."
„Þá opnast heill heimur"
Hvar myndir þú ráðleggja byrjendum í silungsveiði að veiða?
„Til að læra tökin á að bregða við fiski er gott að fara á svæði, sem hefur nóg af fiski. Apavatn, Hítarvatn og Þingvallavatn eru góð svæði, sem henta byrjendum afar vel og fá flestir veiðimenn fisk sem þangað fara. Hinsvegar er gott fyrir alla veiðimenn að reyna á hæfileika sína og þá er gott að fara á svæði eins og Brúará, Elliðavatn, Úlfljótsvatn og Vífilsstaðavatn, þar sem veiðin er oftar en ekki sýnd en ekki gefin. Á slíkum veiðisvæðum er þolinmæði lykillinn að árangri."
Þegar fólk er komið með smá tök á silungsveiðinni hver eru næstu skref?
„Þá opnast heill heimur en ég myndi segja að þurrfluguveiði væri næsta skref. Hún krefst enn meiri þolinmæði, einbeitingar og aga. Í þurrfluguveiði eru tekin fá köst en á móti þá þurfa þau vera góð ætli maður að ná fiski, sem er að taka í yfirborðinu.
Ég myndi mæla með að þeir veiðimenn sem vilja fara á næsta stig veiðinnar að fara í Caddis-hollin vinsælu í Laxárdal, þeir Hrafn og Óli eru endalaus uppspretta fróðleiks."
Stærstu silungarnir
Hver er stærsti silungurinn sem þú hefur veitt?
„Ég hef veitt þrjá urriða í Þingvallavatni sem voru yfir 90 sentímetrar. Sá stærsti var rétt um metri en var ekki formlega mældur heldur var hann mældur við stöngina og síðan með spotta. Sá tók gráa straumflugu í landi Kárastaða við Þingvallavatn vorið 2017. Ég náði varla að lyfta honum og er ennþá orðlaus yfir mínum kynnum af þessari skepnu, sem var vel yfir 20 pund.
Draumurinn er samt að veiða 70 sentímetra bleikju. Ég hef fengið margar, sem voru um 65 sentímetra langar og nokkrar sem voru á bilinu 65 til 67 sentímetrar. Ég hef aldrei náð draumnum - kannski í sumar.”
Urriðar og bleikjur
Fyrir þá sem ekki þekkja þá er sjálfsagt að taka fram hverjar helstu silungategundirnar eru hér á landi. Fyrst ber að nefna staðbundinn urriða og staðbundna bleikju, en það er fiskar sem ganga ekki til sjávar heldur halda til í ferskvatni, stöðuvatni eða á, allt sitt líf. Sjóbirtingur og sjóbleikja eru aftur á móti fiskar sem ganga til sjávar og svo aftur upp í ferskvatn. Sjóbirtingur er silfraður en staðbundinn urriði er jafnan dekkri, það sama má segja um sjóbleikju og staðbundna bleikju.
Til þess að flækja málin aðeins þá hafa á Íslandi þróast ýmiss afbrigði innan bleikjustofnsins. Skipar Þingvallavatn alveg sérstakan sess að þessu leiti því þar eru fjögur afbrigði af bleikju sem öll eru ólík hvað snertir litamynstur, sköpulag, vaxtarferla, stærð og búsvæðaval. Afbrigðin í Þingvallavatni nefnast murta, kuðungableikja, dvergbleikja og sílableikja. Öll þessu afbrigði eru staðbundin líkt og urriðinn í Þingvallavatni. Bæði urriðin (l. Salmo trutta) og bleikjan (l. Salvelinus alpinus) eru af laxaætt (l. Salmonidae) líkt og atlantshafslaxinn (l. Salmo salar).