Kristín Ingibjörg Gísladóttir er alin upp á Seltjarnarnesi. Hún er 23 ára og mikil áhugakona um veiði enda hefur hún eytt sumrunum í Vopnafirði, þar sem fjölskylda hennar á gamlan sveitabæ sem nefnist Ljótsstaðir.
„Bærinn okkar er við bakka Vesturdalsár. Mér þykir mjög gott að vera fyrir austan og segja má að Ljótsstaðir séu mitt annað heimili. Stangaveiðin hefur verið stór hluti af mínu lífi frá því ég man eftir mér. Í minningunni var ég alltaf að þvælast eitthvað með pabba á bakkanum þegar ég var lítil stelpa. Mér fannst þetta strax allt mjög heillandi,“ segir Kristín Ingibjörg en faðir hennar er Gísli Ásgeirsson, veiðimaður og framkvæmdastjóri Strengs, sem er með meðal annars með Hofsá og Selá á sínum snærum.
Vesturdalsá rennur eins og nafnið gefur til kynna um Vesturárdal en sitthvoru megin við dalinn renna Selá og Hofsá. Þær ár eru á meðal þekktustu laxveiðiáa landsins og mjög vinsælar á meðal veiðimanna.
„Ég grátbað um að pabba um að fá að vinna í veiðihúsunum við Selá og Hofsá löngu áður en ég fékk leyfi til þess. Þegar ég var tólf ára fékk ég leyfi til að byrja í uppvaskinu en ég mátti alls ekki fara fram í sal. Nokkrum árum seinna fékk ég síðan leyfi til að vinna í salnum og þessi hefðbundnu störf sem fylgja veiðihúsarekstri. Það má eiginlega segja að ég sé alin upp í veiðihúsi enda get ég ekki hugsað mér sumar án þess að vera í veiðihúsi.“
Veiddi maríulaxinn á bensínstöðvarstöng
Kristín Ingibjörg á margar góðar minningar úr veiðinni. Ein þeirra sem stendur upp úr er þegar hún fór með Gísla Ásgeirssyni, föður sínum í Þistilfjörðinn, þar sem hún veiddi maríulaxinn.
„Þegar ég var 8 eða 9 ára vældi ég í pabba um að fá að fara með honum í Hölkná. Ég held að hann hafi nú ekki endilega nennt að hafa mig með en lét til leiðast. Þegar við komum að ánni stillti hann mér upp á stein og sagði mér að kasta. Ég var með bensínstöðvarstöng og flugu undir.
Pabbi fór síðan að veiða og var komin langt í burtu þegar það tekur allt í einu lax hjá mér. Þarna stóð ég alein og vissi ekkert hvað ég átti að gera með þessa pínulitlu stöng og lax á. Ég hrópaði á pabba sem var í fjarska. Sem betur fer heyrði hann í mér og kom á harðahlaupum til mín og hjálpaði mér að landa þessum fína fiski. Þetta var sérstaklega gaman því pabbi fékk ekkert í þessari ferð,“ segir Kristín Ingibjörg og hlær. „Veiða og sleppa fyrirkomulagið er greinilega mjög innbyggt í mig því mér er mjög minnisstætt að ég fór að hágráta þegar pabbi rotaði laxinn.“
Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Veiði, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .