Þegar vandræðalega þögnin leggst yfir partíið eins og blautt teppi eru nokkrar leiðir til að redda partíinu áður en gripið er í gítarinn í algerri andlegri uppgjöf. Amatörar geta rætt um veðrið og lengra komnir geta frætt nærstadda um nýjustu ævintýri Kardashian-fjölskyldunnar eða farið ítarlega yfir danshæfileikaleysi Miley Cyrus. Slíkt gæti hins vegar farið öfugt ofan í fólk í fínni partíum eða þar sem raungreinamenntað fólk er samankomið. Þá er gott að búa yfir nokkrum fróðleiksmolum til að fleygja í liðið.

Gulrætur hafa verið ræktaðar í þúsundir ára, en appelsínugulu gulræturnar sem við þekkjum svo vel komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en á sautjándu öld, einmitt í Hollandi. Fram að þeim tíma höfðu gulrætur verið gular, rauðar, hvítar og jafnvel fjólubláar á litinn. Sagan segir að appelsínugulu gulræturnar hafi verið ræktaðar til heiðurs prinsinum af Orange og ríkisstjóra hollenska lýðveldisins, Vilhjálmi III, sem var af Orange-Nassau-ættinni, en það getur líka verið eftiráskýring.

Vilhjálmur III varð konungur yfir Englandi árið 1688 þegar Jakob II Englandskonungi var steypt af stóli, en fyrsti Vilhjálmurinn sem sat í því hásæti, stundum kallaður Vilhjálmur bastarður, hrifsaði völdin með innrás árið 1066.

Ein af afleiðingu m þeirrar innrásar var að yfirstéttin talaði frönsku á meðan almúginn talaði engilsaxnesku. Tungumálin tvö runnu með tíð og tíma saman í ensku nútímans, en vegna þessarar skiptingar hefur enska þá sérstöðu að rót húsdýraheita er gjarnan engilsaxnesk, á meðan rót orða yfir afurðir þessara dýra er frönsk. Kindur heita „sheep“ á meðan kindakjöt heitir mutton. Nautgripur er„cow“, „ox“ eða „bull“ á meðan nautakjöt heitir „beef“ og svo mætti lengi telja.

Bólusótt er skelfilegur sjúkdómur, sem dró marga forfeður okkar og -mæður til dauða. Þau sem ekki létust úr sóttinni báru gjarnan stór og ljót ör alla tíð eftir veikindin. Bólusóttin er náskyld kúabólu, sem leggst á nautgripi, og getur síðarnefndi sjúkdómurinn búið til ónæmi fyrir þeim fyrrnefnda. Þeirri kenningu hefur verið varpað fram að þarna sé að finna ástæðu þess að mjaltastúlkan er í sögum oft fallegasta stúlkan í þorpinu. Hún hefur smitast af kúabólu og þar af leiðandi náð að forðast bólusóttina skelfilegu.

Fyrstu dæmi um að kúabóla hafi verið markvisst notuð í bólusetningarskyni er frá Indlandi og Kína frá sautjándu öld. Íslenska orðið bólusetning, sem er nú notað í mun víðari skilningi, stafar frá þessari notkun, sem og enska orðið vaccination, en vacca þýðir kýr á latínu.

Fleiri fróðleiksmola, fyrir fólk sem vill slá í gegn í kokteilboðum og kaffiboðum, má finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem er komið út. Fylgist með Eftir vinnu hér á Facebook .