Ynja Blær Johnsdóttir er ungur listamaður sem útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands á síðasta ári og hefur vakið athygli í listasenunni fyrir einstaklega fallegar teikningar. Hún vinnur helst í miðli blýantsteikningarinnar en verk hennar eru gjarnan teikningar af rýmum, unnar í lögum yfir langan tíma þar sem mismunandi birtuskilyrði og andrúmsloft fá að máta sig inn í rýmið.
Hvenær byrjaðirðu að teikna og hvernig kom það til?
Ég hef alltaf teiknað, en ég á mjög fallega minningu af því þegar ég lærði að nota blýanta í fyrsta sinn. Mamma mín var í skiptinámi í Vínarborg að læra gjörningalist og við systurnar fengum að koma með yfir sumartímann.
Við deildum allar sama svefnherberginu sem var líka stofa, og á kvöldin þegar systur mínar voru farnar að sofa sátum við mamma undir lampa með teikniblokk, blýanta og hnoðleður, og hún kenndi mér það sem hún hafði lært. Ég var 13 ára þarna og var ástfangin af kvikmyndinni Amélie, svo „fyrsta“ blýantsteikningin var af lítilli Amélie að borða hindber af fingrunum, ef ég man rétt.
Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
Þau eru svo mörg. Vija Celmins er ein af mínum uppáhalds. Hún fangar náttúruöflin með ótal lögum af kolum, málningu eða blýanti. Verk hennar hafa ótrúlega dýpt. Hún er meistari sinna miðla.
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá þér?
Hefðbundinn vinnudagur er ekki til í mínu lífi. Sköpunarkrafturinn kemur í bylgjum og ég er alltaf á miklu flakki. Eitthvað í mér á mjög erfitt með stöðnun svo um leið og mér líður þægilega er ég farin í nýtt ævintýri. Það eina sem helst stöðugt er orkuflæðið. Ég vakna alltaf snemma því ég elska morgnana, þögnina og birtuna. Mér finnst mjög gott að skrifa þegar ég er nývöknuð. Þá er rökhugsunin ennþá sofandi, sjórinn nógu saltur til þess að það sem hefur sokkið á botninn fær að fljóta upp á yfirborðið. Hugmyndir að verkum verða oft til í þessu ástandi.
Eftir hádegismat þykir mér gott að gera handavinnuna, teikna. Þá er bjartara og ég hef betri fókus. Kvöldin eru svo fyrir slökun, vináttur, ölskyldu þar að segja ef ég ofmetnast ekki.
Hvaðan ertu helst að fá innblástur þessa dagana?
Ég fæ mikinn innblástur frá náttúrunni og grunn elementunum. Ljósi, ég elska ljósgjafa eins og eld. Ég elska nánd okkar við náttúruna, skjólin sem við byggjum okkur og vanmátt okkar gagnvart henni.
En ég hef líka sterka þörf til þess að umbreyta reynslu minni og það ferli gefur mér mikinn innblástur, það færir mig nær minni innri náttúru.
Hvað hvetur þig áfram í listinni?
Ég er alltaf að elta fegurðina, ástina. Mér finnst ég sjá þegar ásetningurinn á bak við verkið er sjál verfur. Ég þarf stöðugt að minna mig á það í ferlinu að ég er að skapa úr þeim stað í hjartanu sem kann að elska, en ekki þeim stað sem vill vera elskuð. Þegar sköpunin kemur úr staðnum sem elskar, þá myndast ósjálfrátt tilgangur, og þegar það er tilgangur þá er hvatning.
Hverju ertu að vinna að núna?
Ég er að vinna að tveimur sýningum núna. Sú fyrri opnar í Listval í lok ágúst og sú seinni í Monk Contemporary, í Basel, í október.