Annie Mist Þórisdóttir, eigandi og þjálfari í Crossfit BC (Crossfit Bootcamp) sigraði í dag heimsmeistarakeppnina í Crossfit sem fram fór í Los Angeles.
Fyrir utan það að vera núna bæði Evrópumeistari og heimsmeistari í Crossfit er Annie Mist 250 þúsund dölum ríkari en þetta er í fyrsta sinn sem slík peningaverðlaun eru í boði á heimsleikunum í Crossfit sem nú voru haldnir í fjórða sinn.
Eins og fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins um Annie Mist og heimsleikana í Crossfit hefur keppnin farið ört vaxandi síðustu ár en nú hefur bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Reebok gerst helsti stuðningsaðili leikanna.
Sigurvegarinn í einstaklingskeppninni fær sem fyrr segir 250 þús. Bandaríkjadali (um 28,5 m.kr.), fyrir annað sætið eru veittir 50 þús. dalir og fyrir þriðja sætið 25 þús. dalir.
Reebok gerði nýlega styrktar- og auglýsingasamning við Annie Mist og gera má ráð fyrir að sá samningur muni vinda upp á sig í kjölfar sigurs Annie Mistar í dag.
Þetta er í þriðja sinn sem Annie Mist tekur þátt í heimsleikunum en í fyrra lenti hún í 2. sæti og tryggði sér þannig þátttökurétt í ár. Þá sigraði Annie Mist einnig á Evrópuleikunum í Crossfit sem fram fóru í byrjun júní sl.
Í samtali við Viðskiptablaðið í júní sagði Annie Mist að í ár yrði stefnt á sigur. „Ég hef aldrei verið í betra formi og nú á ekkert að koma á óvart í keppninni. Ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef ég verð ekki meðal þriggja efstu,“ sagði Annie Mist.
Annie Mist Þórisdóttir sigraði á Evrópuleikunum í Crossfit í júní 2011. (Mynd: Daði Hrafn Sveinbjarnarson)