Hátíðin Blómstrandi dagar í Hveragerði var formlega sett í dag og mun standa fram á sunnudag. Í tilkynningu segir að áhersla verði lögð á uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags en að hápunktur hátíðarinnar verði á laugardaginn.

Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru Helgi Björns, Guðrún Gunnarsdóttir, Emmsjé Gauti, Sigga Ósk, Eyjólfur Kristjánsson og fjöldi annarra tónlistarmanna.

Taylors Tivoli opnaði einnig tækin sín á Blómstrandi dögum en þau eiga mjög sterka tengingu við Hveragerði. Faðir núverandi framkvæmdastjóra Taylors keypti stærstu tækin úr Tívolíinu í Hveragerði þegar það lagði niður starfsemina. Mikið af þeim tækjum endaði í afþreyingargarði í Suður-Afríku en klessubílarnir og hringekjan eru enn í þeirra eigu.

Þorgils Gunnarsson deildi því í vikunni á Facebook-síðu Blómstrandi daga að hann hefði fylgt tívolítækjunum frá Hveragerði alla leið til Simbabve, síðan Botsvana, fórum þaðan til og loks til Mósambík í Suður-Afríku.

Í tilkynningu segir jafnframt að apinn Bóbó, sem margir muna eftir úr Eden, muni snúa aftur heim um helgina þar sem hann fær tímabundið lögheimili í Blómaborg. Þar mun Bóbó bregða á leik fyrir gesti og gangandi fyrir nokkrar krónur sem allar renna til Einstakra barna.