Source Code, ævisaga Bill Gates, er nýjasta bókin sem fréttamiðillinn WSJ tekur fyrir en hún fjallar ítarlega um fyrstu ár ævi hans ásamt fæðingu Microsoft og umbreytingu tölvuheimsins.
Bill Gates var sonur tveggja hæfileikaríkra foreldra. Faðir hans var þekktur lögfræðingur í Seattle og móðir hans var virkur leiðtogi innan ýmissa samfélagshreyfinga.
Gates var sagður eiga hamingjusama æsku og hafa mikla orku og tilhneigingu til að leita að fróðleik og visku. Bókin minnist á að Gates hafi sjálfur sagt að hann hefði í dag líklega verið greindur með einhverfu.
Hann átti eldri systur sem var víst mjög ólík honum en hún átti það til að fylgja öllum reglum og lék sér auðveldlega við önnur börn. Gates fór hins vegar sínar eigin leiðir og sögðu leikskólakennararnir að hann hefði engan áhuga á skólagöngunni.
Það var ekki fyrr en hann varð eldri sem hann fór að beina orku sinni annað og fór að leysa alls konar þrautir og lesa bækur. Uppáhaldsbókin hans var víst World Book Encyclopedia.
Bill Gates uppgötvaði síðan að hann var mjög góður í stærðfræði og hjálpaði það við að veita honum sjálfstraust á unglingsárunum. Faðir hans segir að hann hafi nánast fullorðnast á einni nóttu.
Source Code talar einnig um samkeppnishæfni hans en frá ungum aldri vildi hann vinna hvern einasta leik sem hann tók þátt í. Hann nálgaðist öll áhugamál sín með grimmum ákafa og hefur það vissulega átt stóran þátt í að gera hann að þeim manni sem hann er í dag.