Charles Gasparino, fréttaritari hjá Fox Business Network og fjármálablaðamaður á Wall Street til margra ára, hefur nýlega gefið út bókina Go Woke, Go Broke: The Inside Story of the Radicalization of Corporate America.
Fréttamiðillinn og jafnframt gamli vinnustaður Gasparino, WSJ, skrifaði nýlega um bókina en þar lýsir hann hvernig bandarísk fyrirtæki hafa breyst í réttlætisriddara í þágu hinnar svokölluðu woke-hreyfingar.
Gasparino segir að hugmyndafræðin sé skaðleg og eigi hvergi heima nálægt stjórnarfundum. Hann segir að fjöldi Bandaríkjamanna, sem hafa annaðhvort misst störfin sín vegna þvingaðrar fjölbreytileikastefnu (e. DEI) á vinnustöðum eða eigi í hættu á að missa þau, muni skilja vel boðskap bókarinnar.
Í bókinni tekur hann fyrir nokkur dæmi og veitir skemmtilegar frásagnir af því sem hann kallar mistök fyrirtækja í þágu hugmyndafræði.
Þar má nefna AB InBev, framleiðanda Bud Light, sem bjó til sérstakar bjórdósir fyrir trans áhrifavaldinn Dylan Mulvaney. Margir hægrisinnaðir Bandaríkjamenn mótmæltu þessari herferð og sniðgengu bjórinn, sem hafði áður fyrr verið álitinn karlmannsdrykkur.
Gasparino minnist einnig á verslunarkeðjuna Target sem auglýsti sundföt sem voru sérstaklega hönnuð fyrir karlmenn sem voru að skipta um kyn, ásamt regnbogalituðum fötum fyrir ungbörn.
Hann minnist einnig á baráttu Disney við ríkisstjóra Flórída, Ron DeSantis, um kynfræðslu barna í skólum í ríkinu. Eftir margra mánaða baráttu fóru hlutabréf Disney að hríðlækka og er fyrirtækið vinsælt skotmark meðal hægrimanna í Bandaríkjunum.