Stærstu rannsóknarstofur lífeðlisfræðilegra rannsókna í Bandaríkjunum og Evrópu, PubMed og Europe PMC, geyma um 84 milljónir ritgerða á milli sín og nokkrar milljónir ritgerða bætast til viðbótar við safnið á hverju ári.
Samkvæmt nýjum rannsóknum innihalda um 90% þessara ritgerða, eða 75 milljónir ritgerða talsins, upplýsingar sem eru annaðhvort villandi, rangar eða hreint út skáldaðar.
Á undanförnum 20 árum hafa ákveðnar vísindagreinar farið í gegnum svokallaða fjölritunarkreppu en þar hafa fjölmargar ritgerðir verið afhjúpaðar sem annaðhvort lélegar eða hreint út svindl.
Slíkar uppgötvanir geta komið sér illa fyrir höfunda og valdið vandræðalegum óþægindum en þegar kemur að lyfjaiðnaðinum geta slíkar villandi upplýsingar kostað mannslíf þar sem læknar og lyfjaframleiðendur reiða sig á þær til að hjálpa sjúklingum.
Unreliable: Bias, Fraud, and the Reproducibility Crisis in Biomedial Research er nýjasta bókin sem WSJ tekur fyrir. Í henni fer Csaba Szabo, doktor í lífeðlis- og lyfjafræði, í gegnum þær rannsóknir sem hann hefur séð fara úrskeiðis á síðustu 30 árum.
Alvarlegustu frásagnirnar í bókinni snúast um svik, það er að segja vísindamenn sem skálda gögn eða kaupa tilbúnar ritgerðir fyrir allt að 500 dali. Szabo lýsir þessum tilraunum sem brjálæðislegri frekju og segir þetta vera alvarlega glæpastarfsemi.
Hann bendir þó á að stærsta vandamálið liggi hjá vísindamönnum sem leggi sig alla fram við að skrifa góðar og vandaðar ritgerðir en finni fyrir þrýstingi til að flýta sér. Þeir geta til dæmis ekki unnið án styrkja en aðeins 20% af þeim 70 þúsund umsóknum sem bandaríska heilbrigðisstofnunin fær á hverju ári fá styrk.