David Beckham vinnur nú að því að bæta fjárhagsstöðu knattspyrnufélagsins Salford City, sem leikur í League Two, fjórðu efstu deild Englands. Fjárfestahópur sem Beckham leiðir mun leggja knattspyrnufélaginu til 16 milljónir punda, eða um 2 milljarða króna, samkvæmt heimildum Bloomberg.

Leikmenn úr „Class of 92“ hópnum, sem gerði garðinn frægan hjá Manchester United, voru meðal eigenda Salford City, sem er staðsett í borginni Salford á stórborgarsvæði Manchester.

Beckham og Gary Neville mun nú leiða eignarhald Salford City ásamt Declan Kelly, stofnanda ráðgjafarfyrirtækisins Consello, og Mervyn Davies, stjórnarformanns fjárfestingafélagsins LetterOne sem er að hluta í eigu rússnesku milljarðamæringana Mikhail Fridman og Petr Aven. Davies er fyrrverandi stjórnarmaður Tottenham Hotspur.

Aðrir leikmenn úr Class of 92 - Paul Scholes, Ryan Gigs, Nicky Butt og Philip Neville, verða ekki lengur hluthafar í Salford City en í tilkynningu knattspyrnufélagsins segir að þeir muni áfram koma að rekstri félagsins.

Paul Scholes, Philip Neville, Nicky Butt, Ryan Giggs, David Beckham og Gary Neville.
© epa (epa)

Salford City hefur spilað í EFL League Two deildinni frá árinu 2019. Í umfjöllun Bloomberg segir að líkt og mörg önnur ensk knattspyrnufélög sé félagið rekið með tapi. Rekstrartap félagsins á rekstrarárinu sem lauk í júní 2024 nam 5,4 milljónum punda eða um 930 milljónum króna.

Salford City hefur samtals tapað um 28 milljónum punda eða um 4,8 milljörðum króna, frá því að ofangreindur hópur fyrrverandi leikmanna Manchester United fjárfesti fyrst í félaginu árið 2014.