Nú hefur Ása Sóley sett saman lúxus jógaferð í samstarfi við Gamanferðir. Viðskiptablaðið spjallaði við hana um jógað, jógakennsluna og ferðina sem framundan er.
Hvenær hófst þín jógavegferð?
Ég byrjaði í jóga árið 2009. Ég hef alltaf stundað mikla hreyfingu og langaði að prófa eitthvað nýtt. Þá var Hot Yoga að byrja í World Class og mér fannst eitthvað spennandi við að prófa hitann og svitna mikið. Eftir fyrsta tímann var ekki aftur snúið. Fyrst voru augljósu áhrifin á líkamann sem heillaði mig við jógað en svo fór ég að finna hvað þetta hafði líka góð áhrif á andlegu hliðina. Mér fór að líða betur og varð öll rólegri einhvern veginn. Þremur árum síðar fór ég í mitt fyrsta jógakennaranám í Yoga Shala Reykjavík, hjá Ingibjörgu Stefánsdóttur. Stuttu eftir að ég kláraði námið ákvað ég að hætta í níu–fimm vinnunni minni í ferðaþjónustu til að geta gert jógakennslu að mínu aðalstarfi. Það var besta ákvörðun sem ég hef tekið í mínu lífi og ég hef verið svo heppin að fá að vinna við það að kenna jóga, sem er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég ætlaði aldrei að byrja í jóga, svo ætlaði ég aldrei að verða jógakennari og í dag er ég búin að fara í tvö kennaranám hérna heima, eitt í Kosta Ríka og eitt á Bali og stefni á annað í Flórída núna í október.
Jóga við kvíða og þunglyndi
Hvað gerir jóga fyrir þig?
Jóga er það sem heldur mér gangandi. Það gerir mig að betri manneskju og hjálpar mér að líða betur andlega og líkamlega. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að fá að deila jóga og hugleiðslu með öllum þeim sem koma í tíma til mín og fara með mér í jógaferðirnar. Ég kynntist Yoga Nidra, leiddri djúpslökun og hugleiðslu, í vetur og það hefur hjálpað mér mikið að vinna með kvíðann minn og þunglyndi.
Hefurðu áður verið með heilsuferð sem þessa?
Í fyrra skipulagði ég mína fyrstu jógaferð sem var 10 daga jóga og brimbrettaferð fyrir konur á dásamlegan stað í Portúgal. Þetta var ein besta ferð sem ég hef farið í. Þá vissi ég að þetta var eitthvað sem ég vildi gera meira af. Ég skipulagði svo jógaferð til Tossa de Mar á Spáni með Gaman Ferðum og fór í fyrstu ferðina í júní á þessu ári. Þetta var frábær ferð
með æðislegum hóp. Tossa de Mar er ótrúlega fallegur og rólegur lítill bær stutt frá Barcelona. Við gistum á æðislegu hóteli þar sem við stunduðum jóga í sal ásamt því að stunda jóga og hugleiðslu á ströndinni með útsýni yfir sjóinn. Ég hlakka því mikið til að fara þangað í næstu ferð sem verður farin dagana 2.-9. október.
Allir á sínum forsendum
Hvað verður lagt áherslu á í ferðinni?
Aðaláherslan í ferðinni er bara að njóta lífsins, slaka á, stunda jóga og hugleiðslu, borða góðan mat og fara svo endurnærð/ur
heim aftur. Þarftu að hafa sterkan jógagrunn til þess að geta farið í ferð sem þessa? Það þarf alls ekki að hafa reynslu af jóga til að koma með í ferðina. Það koma allir á sínum eigin forsendum og gera bara eins mikið og líkaminn og heilsan leyfir. Það er engin krafa um að gera neitt meira en það.
Hvað er innifalið í ferðinni?
Innifalið í ferðinni, sem er vika, er flug og skattar, akstur til og frá flugvelli, gisting með hálfu fæði í tvíbýli á Hótel Gran Reymar, jóga og hugleiðsla daglega ásamt einum aðgangi að heilsulind hótelsins.
Jógaferð besta fríið
Hversu mikilvægt telurðu að fólk taki sér frí frá amstri dagsins og rútínu til þess að sinna heilsunni með þessum hætti?
Að fara í svona jógaferð er besta frí sem ég hef upplifað. Að komast í burtu og slaka vel á og ná að aftengja sig aðeins frá sínu daglega amstri er einfaldlega nauðsynlegt. Það þyrftu allir að komast í smá jógafrí og hlúa svolítið að líkamlegri og andlegri heilsu sinni, hlaða batteríin og vera í enn betra standi til að takast á við daglegt líf þegar heim er komið. Í þessari ferð er í kaupbæti smá framlenging á sumrinu sem við þurfum svo sannarlega á að halda til að geta farið glöð í gegnum veturinn.
Nánari upplýsingar má finna á www.gamanferdir.is