Í umræðunni um fjöldann vaknar líka spurningin hver af þessum golfvöllum sé bestur. Sú umræða gæti orðið til að æra óstöðugan en í gegnum tíðina hafa sömu tveir golfvellinir skipst á að vera á toppi listans um bestu golfvelli heims að mati sérfræðinga.
Annars vegar er það Pine Valley í New Jersey í Bandaríkjunum og hinsvegar Royal County Down rétt fyrir utan Belfast á Norður-Írlandi. Vellirnir eru eins ólíkir og hugsast getur.
Pine Valley
Pine Valley er einkaklúbbur í New Jersey, þar sem hinn almenni kylfingur getur eingöngu leikið sé honum boðið á völlinn af meðlimi klúbbsins. Klúbburinn var stofnaður árið 1913 af nokkrum áhugakylfingum frá Fíladelfíu. Þeir keyptu 74 hektara landskika til að byggja völl. Maður að nafni George Arthur Crump var fenginn til að hanna völlinn þar sem hann þekkti landsvæðið vel eftir að hafa stundað þar veiðar
Landsvæðið var krefjandi og ekki einfalt að byggja þar golfvöll. Verkefnið varð að þráhyggju hjá Crump, sem seldi hótel sem hann átti í Fíladelfíu og setta alla peninga sem hann átti í verkefnið. Óvenju miklar jarðvegsframkvæmdir fóru fram við gerð vallarins miðað við það sem þekktist á þessum tíma. Völlurinn var sá fyrsti og eini sem Crump hannaði, en hann fékk til liðs við sig meðan á verkefninu stóð fjölmarga þekkta golfvallahönnuði þess tíma. Crump setti sér nokkrar sérkennilegar meginreglur við hönnun vallarins, svo sem að engar holur skyldu liggja samhliða, ekki meira en tvær holur í röð skyldu leiknar i sömu átt, kylfingar ættu ekki að geta séð neina aðra holu en þá sem þeir væru að leika og að kylfingurinn þyrfti helst að nota allar kylfurnar í pokanum þegar hann léki völlinn.
Árið 2021 var Pine Valley klúbbnum stefnt fyrir dóm þar sem konum var ekki heimilt að ganga í klúbbinn. Einnig var aðgangur þeirra að vellinum takmarkaður sem og heimild þeirra til að eiga heimili á landsvæði klúbbsins. Sátt náðist í málinu í fyrra og geta konur nú orðið félagsmenn í klúbbnum.
Fyrstu 11 holur vallarins voru opnaðar árið 1914. Crump lést árið 1918, að því sagt er staurblankur. Gerð vallarins lauk árið 1922. Klúbburinn hefur eignast meira landsvæði sem nær nú yfir 252 hektara. Af því eru 168 hektarar ósnert skóglendi. Frá andláti Crump hafa nokkrir frægir golfvallahönnuðir komið að breytingum á vellinum. Þar er nú líka að finna 10 holu stuttan völl sem hannaður er af Tom Fazio.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild hér.