Kínverski bílaframleiðandinn BYD er að hefja innreið á Evrópumarkað með rafknúna fólksbíla og það er eftir því tekið í bílaheiminum. BYD er nefnilega það fyrirtæki á þessu sviði sem vex hvað hraðast um þessar mundir.
Blaðamenn urðu áþreifanlega varir við stórbrotin áform BYD í kynningarferð sem farin var til Katalóníu á dögunum. Þar voru kynntir til sögunnar tveir splunkunýir bílar fyrir Evrópumarkað, þ.e. hlaðbakurinn Dolphin og hinn sportlegi Seal sem mun líklega keppa helst við Tesla 3 í verðum og í smíðagæðum. Auk þess var borgarjepplingurinn Atto3 skoðaður.
BYD var stofnað árið 1995 í Shenzhen í Kína og var þá framleiðandi endurhlaðanlegra rafhlaða en starfrækir núna yfir 30 iðngarða í Kína, Bandaríkjunum, Kanada, Japan, Brasilíu, Ungverjalandi og Indlandi. BYD framleiðir rafhlöður fyrir fjölmarga aðra bílaframleiðendur, þar á meðal í allar Teslur á Evrópumarkaði. BYD er stytting úr ensku á Build Your Dream.
Trú fjárfesta
Fram kom á blaðamannafundi BYD á Spáni að á einu og sama árinu myndi bílaframleiðandinn kynna fimm nýja bíla inn á Evrópumarkað. Þetta eru sportjeppinn Tang og Atto3 sem er minni gerð sportjeppa, fólksbíllinn Han í 4x4 útfærslu hérlendis, hlaðbakurinn Dolphin og sportbíllinn Seal.
Það hefðu einhvern tímann þótt fréttir til næsta bæjar að bílaframleiðandi kæmi fram með fimm nýjar gerðir á einu ári. En BYD er ekkert venjulegt fyrirtæki. Samtals starfa í kringum bílaframleiðsluna yfir 600 þúsund manns í fjölmörgum löndum en stærsti markaður BYD er heimamarkaðurinn.
Svo virðist líka sem fjárfestar hafi mikla trú á framtíð fyrirtækisins, altént er Warrent Buffett meðal fjárfesta sem segir sína sögu þótt honum eins og öðrum geti orðið á mistök í sínum fjárfestingum.
Skemmtilegur Atto3
Á Spáni var lítið boðið upp á reynsluakstur nema hvað kostur gafst á því að taka lítillega í Atto3 sem er bíll skemmtilegur í akstri. Hann kemur með 60 kWst rafhlöðu og sagður með 420 km drægni í blönduðum akstri.
Eins og allir rafbílar BYD er hann byggður á nýjum undirvagni sem kallast e-Platform þar sem rafhlaðan er í raun hluti af burðarvirki bílsins og stuðlar þannig að meiri stífleika og stöðugleika í akstri. Þetta kalla BYD menn Cell-to-Body tækni. Kostir þessa fyrirkomulags fundust líka vel þegar þessum framhjóladrifna jepplingi var ekið greitt í beygjum.
Hröðunin er 7,3 sekúndur í hundraðið og bíllinn er algjörlega hlaðinn búnaði í staðalgerð sem of langt væri að telja upp hér. Fínar upplýsingar eru um þetta á heimasíðu Vatt ehf., umboðsaðila BYD. Lagleg og frumleg hönnun skín í gegn jafnt að innan sem utan.
Nánari um bílana má finna í blaðinu EV - Bílar sem kom út fyrir helgi. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.