Fjölmargar áhugaverðar nýjungar litu dagsins ljós á árlegu tæknisýningunni í Las Vegas sem nú er nýlokið. Sýningin var haldin á Mandalay Bay hótelinu.
Um 4.500 fyrirtæki frá meira en 160 löndum sýndu ýmsar vörur eða allt frá ofursnjöllum blómapottum til sjálfkeyrandi dráttarvéla. Um 140 þúsund gestir sóttu CES-sýninguna en CES stendur fyrir Consumer Electronic Show.
Algjörlega þráðlaust sjónvarp
Sjónvarp frá fyrirtækinu Displace vakti athygli á sýningunni í Las Vegas. Sjónvarpið, sem er 55 tommur, gengur fyrir rafhlöðu og því eru engar snúrur að þvælast fyrir. Hver hleðsla dugar í átta klukkustundir þegar sjónvarpið er stillt á mestu skjábirtu. Hægt er að kaupa utanáliggjandi hátalara, sem ganga einnig fyrir rafhlöðu. Ef það er gert eykst rafhlöðuending sjónvarpsins í 60 klukkustundir.
Aftan á sjónvarpinu eru fjórar stórar sogskálar til að festa það við vegg. Einnig eru áfastir fætur á sjónvarpinu, sem ganga upp í rammann ef notandinn kýs að nota þá ekki heldur festa sjónvarpið á vegg. Sjónvarpið er OLED 4K og er einnig fáanlegt í 27 tommu stærð.
Byltingarkennd gleraugu
Mikil þróun hefur verið í snjallgleraugum undanfarin ár. Á tæknisýningunni í Las Vegas vöktu gleraugun frá sprotafyrirtækinu Halliday einna mesta athygli. Ástæðan er sú að í þeim er tölvuskjár, sem er innbyggður í umgjörðina sjálfa en ekki glerið. Þetta er lítill skjár sem notendur geta skoðað með því að horfa upp.
Í umgjörðinni eru hátalarar og hljóðnemi. Hægt er að tengja gleraugun við snjallsíma og geta notendur því lesið skilaboð eða tölvupóst í gleraugunum, svarað símanum eða hlustað á tónlist. Skjárinn er raddstýrður en einnig er hægt að stýra honum með snjallhring, þar sem skrunað er í gegnum valmyndir með fingri, t.d. þumlinum.
Heyrnartól gegn hrotum
Fyrir tveimur árum hættu þrír verkfræðingar störfum hjá Bose og stofnuðu fyrirtækið Ozlo. Ein af ástæðunum var að Bose hætti að þróa lítil heyrnartól, sem fyrst og síðast voru ætluð þeim sem vilja sofa vært án þess að umhverfishljóð trufli svefninn eins og til dæmis hrotur. Verkfræðingarnir keyptu tæknina af Bose og hafa nú sett á markað Ozlo Sleepbuds. Þetta eru pínulítil heyrnartól með virka hljóðeinangrun (e. noise cancelling). Heyrnartólin eru með bluetooth og því hægt að nota þau eins og hefðbundin heyrnartól.
Snjallblómapottur
LeafyPod er snjallblómapottur fyrir þá sem eru ekki með græna fingur. Eins og nánast allar tækninýjungar í dag byggir LeafyPod á gervigreindartækninni. Blómapotturinn tengist smáforriti í símanum. Í appinu er valið hvernig plöntu er verið að planta og potturinn lærir hvernig best á að hugsa um plöntuna. Hversu oft á að vökva, hvort plantan þurfi meiri birtu eða minni, hvort hún þurfi meiri hita eða hvort hún þurfi að fara á svalari stað í íbúðinni, hvort of mikill raki sé í kringum hana og svo framvegis.
Þegar búið er að finna rétta staðinn fyrir plöntuna getur eigandinn farið í allt að fjögurra vikna frí. Í pottinum er nefnilega vatnsgeymir og gervigreindin sér um að skammta plötunni vatn.
Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu, sem var að koma út. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.