Christian Horner var í morgun rekinn úr starfi sem liðsstjóri Red Bull Racing, eins sigursælasta liðs síðustu ára í Formúlu 1. Liðið varð sex sinnum heimsmeistari bílasmiða undir hans stjórn.

Horner hefur stýrt í 20 ár, lengur en nokkur annar liðsstjóri í F1. Laurent Mekies, sem hefur verið gegnt stöðu liðsstjóra hjá Racing Bulls, systurliði Red Bull Racing, verður eftirmaður Horner.

Eftir að hafa unnið keppni bílasmiða á árunum 2022 og 2023, og lent í öðru sæti í fyrra, situr Red Bull liðið nú í fjórða sæti á miðju yfirstandandi tímabili. Gengi liðsins hefur farið hrapandi á undanförnum átján mánuðum og hefur fjórfaldi heimsmeistarinn Max Verstappen aðeins unnið tvær keppnir í ár.

Horner var í fyrra sakaður um óviðeigandi hegðun af kvenkyns starfsmanni Red Bull liðsins í fyrra. Hann neitaði sök og var hreinsaður af ásökunum eftir rannsókn liðsins.

Nokkrir lykilstjórnendur hafa yfirgefið Red Bull liðið á síðustu misserum, þar á meðal hönnuðurinn og verkfræðingurinn Adrian Newey sem færði sig yfir til Aston Martin.