Bandaríska vínfyrirtækið Constellation Brands hefur keypt upp alla vínframleiðslu Sea Smoke, sem staðsett er í Santa Barbara í Kaliforníu. Þetta kemur fram á heimasíðu Decanter en ekki er gefið upp hve há fjárhæðin var.
Samningurinn felur í sér um 450 hektara landsvæði í Sta Rita Hills, auk víngerðarrýmis og vörumerki Sea Smoke.
Constellation, sem rekur meðal annars vínekrur Robert Mondavi og Kim Crawford, hefur verið í mikilli úrás undanfarið en fyrirtækið hefur einnig keypt Booker Vineyard, Domaine Curry, Lingua Franca og Schrader Cellars.
Kaupin á Sea Smoke endurspegla ákveðna þróun meðal neytenda en Bandaríkjamenn drekka ekki eins mikið af víni og þeir gerðu áður fyrr. Þetta hefur skapað offramboðskreppu í Kaliforníu. Eftirspurn eftir dýrari vínum er þó enn mikil.
„Sea Smoke býður ekki aðeins upp á einstaklega góða vínekru í Sta Rita Hills, heldur samræmist vínið líka eftirspurn neytenda okkar. Við hlökkum til að vinna með Sea Smoke til að rækta þessa einstöku víntegund og á sama tíma viðhalda gæðahefð og upplifun viðskiptavina okkar,“ segir Sam Glaetzer, forseti víndeildar hjá Constellation.
Sea Smoke var stofnað af tölvuleikjafrumkvöðlinum Bob Davids í Santa Barbara árið 1998. Vínin voru ekki lengi að fá mjög góða dóma frá virtum gagnrýnendum og öðlaðist Sea Smoke orðspor sem einn af bestu framleiðendum Pinot Noir og Chardonnay í Kaliforníu.