Laugardaginn 24. maí kl. 15.00 verður opnuð ný sýning á verkum Jóhannesar S. Kjarvals á Kjarvalsstöðum. Sýningin ber heitið Draumaland og beinist að fantasíuverkum listamannsins, þar sem finna má dulspekilegar og trúarlegar vísanir og táknmyndir.

Á sýningunni verður einnig horft til tveggja áhrifavalda á ferli Kjarvals: myndhöggvarans Einars Jónssonar (1874–1954) og enska skáldsins og listamannsins Williams Blake (1757–1827). Í því samhengi eru fengin að láni nokkur málverk eftir Einar Jónsson frá Listasafni Einars Jónssonar.

Verk Kjarvals sem sýnd eru á sýningunni spanna allan hans feril. Fyrsta sýning hans í Reykjavík var árið 1908, þegar hann var 22 ára gamall, og þar komu fantasíuverk hans fyrst fyrir sjónir almennings. Slík verk – þar sem meðal annars má sjá huldufólk, dulrænar verur og táknmyndir – fylgdu Kjarval allt hans líf og þróuðust í gegnum árin.