HM í Katar hefst um helgina með opnunarleik á milli Katars og Ekvador. Mikið hefur verið rætt og ritað um ágæti þess að halda mótið í Katar, en yfirvöld þarlendis hafa brotið gróflega gegn mannréttindum farandverkafólks. Það breytir því þó ekki að mótið mun fara fram og fjölmargir aðdáendur munu flykkjast til Katar að styðja við sitt landslið.

Fjölmiðlar hafa greint frá því að mótið í Katar sé það dýrasta frá upphafi. Því hefur verið slengt fram að kostnaður mótsins nemi 220 milljörðum dala. Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka, segir þessa tölu afar misvísandi.

„Þetta er röng tala og hefur verið notuð vegna þess að yfirvöld í Katar hafa sjálf verið að nota hana. Langsamlega stærstur hluti þessarar stóru fjárhæðar er fjárfesting í innviðum í landinu, en Katarar hafa byggt landið gríðarlega hratt upp á undanförnum misserum og hafa sett stóran hluta framkvæmda undir sama HM hatt.“

HM í Rússlandi kostaði í kringum 12 milljarða dala, en mismunandi er hvernig mótið er verðlagt eftir gengi rúblunnar. Mótið í Brasilíu kostaði 15 milljarða dala og olli kostnaður mótsins miklu fjaðrafoki heima fyrir. Áætlaður kostnaður vegna mótsins í Katar er í kringum 11 milljarðar dala.

„Mér sýnist kostnaður mótsins ætla að verða svipaður mótunum í Brasilíu og Rússlandi, það er kostnaðurinn við að byggja þá átta leikvanga sem leikið verður á, aðstæður við vellina og breytingar á þeim að móti loknu. Breytingarnar fela ýmist í sér að taka leikvanga niður, minnka þá, eða breyta þeim svo að önnur starfsemi verði í byggingunni, svo sem verslunarmiðstöðvar.“

Meðal þess sem yfirvöld í Katar telja sem kostnað vegna mótsins er uppbygging borga. Þá er borg sem heitir Lusail sem verið er að byggja upp, þar sem úrslitaleikurinn verður spilaður.

„Mér finnst ólíklegt að ákvörðun um að byggja upp heila borg, með öllum þeim innviðum sem fylgja, fylgi því að það þurfi að spilast þar fótboltaleikur. Mér þykir líklegra að það hafi verið ákveðið fyrirfram.“

Úrslitaleikur HM verður spilaður í borginni Lusail, þar sem þessi glæsilegi leikvangur er staðsettur.
© epa (epa)

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.