Íslenski dansflokkurinn og Listasafn Reykjavíkur kynna Flóðreka, einstaka dansinnsetningu undir listrænni stjórn Aðalheiðar Halldórsdóttur. Verkið, sem byggir á hinu áhrifamikla listaverki Flóð eftir Jónsa, fer fram í Hafnarhúsinu fimmtudaginn 12. desember frá kl. 18.00–20.00.
Flóð, sem hefur vakið athygli fyrir marglaga hljóðheim og djúpstæða skynræna upplifun, er kjarninn í þessu nýja verki. Í Flóðreka ganga gestir inn í myrkvað rými þar sem hljóð, ljós og hreyfing skapa samspil sem umbreytir umhverfinu. Mistur, óræður ilmur og ljóðrænir tónar úr náttúrunni blandast við stafræn áhrif og raddhljóð sem magna skynjunina. Líkami og hugur sameinast í ógleymanlegri upplifun, þar sem ljósrákir í loftinu svara ómi og dansararnir túlka krafta náttúrunnar.
Gestum er frjálst að koma og fara á meðan viðburðurinn stendur yfir, og aðgöngumiði á safnið veitir aðgang. Ókeypis er fyrir árskorts- og menningarkortshafa, sem og börn undir 18 ára aldri.
Safnið verður opið til kl. 22.00, og gestir geta notið drykkja á pop-up bar Lady Brewery. Þetta er einstakt tækifæri til að upplifa dans, sjónlist og tónlist í nýju ljósi í Hafnarhúsinu.