Matarhátíðin Food & Fun snýr aftur og verður haldin í tuttugasta sinn dagana 1.-4. mars. Hátíðin var síðasta haldin í mars árið 2020, en féll niður næstu tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins.

Venju samkvæmt mun fjöldi erlendra matreiðslumanna gera sér ferð hingað til lands til að taka þátt. Íslendingum gefst kostur á að bragða á réttum þeirra á þrettán veitingastöðum sem staðsettir eru í Reykjavík og nágrenni. Veitingastaðirnir eru Apotekið, Brút, Duck & Rose, Eiríksson, Fiskmarkaðurinn, Fröken Reykjavík, Héðinn, Hnoss, La Primavera Harpa, Mathús Garðabæjar, Sumac, Tides og Tres Locos.

Food & Fun verður í þetta skiptið í samstarfi við Dineout. Fyrirtækið hefur sett í loftið sérstaka viðburðarsíðu þar sem áhugasamir geta kynnt sér þá möguleika sem í boði eru, hvar sé laust borð og þá um leið gengið frá borðapöntun.

Nánar er fjallað um Food and Fun í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun.