Matarhátíðin Reykjavík Food & Fun verður haldin dagana 12.-16. mars 2025, í 22. skiptið. Hátíðin hefur öðlast fastan sess í menningarlífi borgarinnar og er löngu orðin einn af hápunktum ársins fyrir matgæðinga.
Markmið Food & Fun er að sameina íslenskt hráefni og alþjóðlega matargerðarlist, þar sem erlendir gestakokkar fá tækifæri til að nýta ferskar og einstakar afurðir Íslands í nýstárlegum réttum.
Hátíðin hefur vakið mikla athygli á heimsvísu og hefur reynst frábær kynning á íslenskri matargerð.
Eftirtaldir veitingastaðir taka þátt í ár:
Apótek Kitchen + Bar, Brasserie Kársnes, Brút Eiríksson, Finnsson Bistro, Fiskmarkaður, Fröken Rvk, Hjá Jóni, La Primavera Harpa, La Primavera Marshal, Matur & Drykkur, OTO, Skreið, Sumac, Sushi Social, Tides og VOX.
„Food & Fun er orðin órjúfanlegur hluti af matar- og menningarupplifun Reykjavíkur og dregur að sér fólk sem elskar góðan mat og frábæra stemningu. Það er alltaf einstök orka á veitingastöðum borgarinnar á hátíðinni og við erum heppin að hafa fengið til okkar framúrskarandi matreiðslumeistara frá öllum heimshornum í gegnum tíðina,“ segir Óli Hall, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.
Í tilkynningu segir að erlendir gestakokkar hafi í gegnum tíðina verið sérstaklega hrifnir af íslensku hráefni, sem hefur jafnframt orðið að aðalsmerki Food & Fun hátíðarinnar.
Mörg dæmi eru um að íslenskar afurðir hafi ratað á matseðla víða um heim í kjölfar þess að gestakokkar kynntust þeim á hátíðinni.
„Það er sérstakt að fylgjast með áhuga erlendra matreiðslumanna á íslensku hráefni, hvort sem það er íslenskt lamb, ferskur fiskur eða jafnvel íslenska smjörið sem oft stelur senunni. Matgæðingar víða um heim hafa kynnst einstökum brögðum Íslands og sjálfbærni í matvælaframleiðslu í gegnum þessa hátíð,“ segir Óli enn fremur.