Skóvörumerkið Hoka, sem einblínir á framleiðslu á hlaupa- og fjallgönguskóm, seldi skó fyrir um þrjár milljónir dala árið 2012, eða sem nemur um 386 milljónum króna miðað við gengi Bandaríkjadals gagnvart íslensku krónunni á lokadegi ársins 2012.

Ári síðar festi bandaríska fyrirtækið Deckers Brands kaup á Hoka, en undir hatti fyrirtækisins má finna fleiri þekkt vörumerki á borð við Ugg og Teva sem einnig framleiða skóbúnað. Óhætt er að segja að kaupin á Hoka hafi reynst arðbær því vinsældir skónna hafa vaxið hratt undanfarinn áratug. Til marks um það seldi Deckers Brands Hoka skó fyrir 1,4 milljarða dala á síðasta fjárhagsári, sem nemur rúmlega 185 milljörðum króna.

Vöxtur Hoka skónna hefur verið sérlega hraður síðustu ár en fyrir fimm árum stóð sala á Hoka skóm undir innan við 10% af heildarveltu Deckers Brands. Á síðasta fjárhagsári stóð sala á skónum aftur á móti undir nærri 40% af veltu samstæðunnar. Á sama tíma hefur gengi hlutabréfa félagsins, sem skráð er á markað vestanhafs, nærri sexfaldast, úr tæplega 100 dölum á hlut í tæplega 560 dali. Þegar hoft er ár aftur í tímann hefur gengið tvöfaldast og eins og bent er á í umfjöllun Wall Street Journal (WSJ) um málið er fyrirtækið eitt af fáum sem náð hefur slíkum árangri á tímabilinu, án þess að koma með nokkrum hætti nálægt þróun gervigreindar.

„Forljótir trúðaskór“

Það sem gerir vinsældir Hoka ekki síður athyglisverða er að skórnir hafa um nokkra hríð haft það orðspor á sér að vera sérlega ljótir. Í blaðagreinum hafa höfundar gripið til fjölda orða til að lýsa því hve ljótir þeim þykja Hoka skórnir. Sykurpúðaskór, trúðaskór, bólgnir, yfirþyrmandi, forljótir og bara…nei. Þetta er aðeins brot af þeim orðum sem notast hefur verið við til að lýsa útliti Hoka skónna og dæmi hver fyrir sig hvort þessar lýsingar séu réttmætar eður ei. Fyrrnefndar sölutölur gefa þó til kynna að ekki séu allir á sama máli.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.