Verk hennar einkennast af næmni fyrir ljósi, skugga og stemningu, þar sem hún fangar bæði hráa fegurð og dulúð í myndefni sínu. Dóra hefur unnið með fjölbreyttum viðfangsefnum, allt frá tísku- og portrettljósmyndun til persónulegra listaverka sem kanna huglægar og tilfinningalegar hliðar mannlegrar tilveru.
Dóra Dúna er listamaður mánaðarins í nýjasta tölublaði Eftir vinnu.

Hvenær byrjaðirðu að taka myndir og hvernig kom það til að þú fórst að skapa?
Ég byrjaði ung að hafa áhuga á ljósmyndun, filmuvélin var einhvernveginn aldrei fjarri, ég fór í ljósmyndaskóla Sissu um tvítugt en hafði ekki alveg agann í að mæta í tíma. Þá tók við áratugur í bar/kaffihúsarekstri í Kaupmannahöfn. Ég fluttist svo heim og lét drauminn rætast – skráði mig aftur í Ljósmyndaskólann, útskrifaðist þaðan 2021.
Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
Viviane Sassen, Patti Smith og Regína Rourke eiga stóran stað í listahjarta mínu.
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá þer ?
Þar sem dóttir mín er ekki komin með leikskólapláss þá er mikið púsl í gangi hjá mér og eiginkonu minni. Við skiptumst á að „fá“ að vinna á daginn. Ég er þá annað hvort i stúdíóinu í myndatökum eða í eftirvinnslu í tölvunni. Verkefnin eru mjög fjölbreytt sem er eitt af því sem ég elska mest við starfið mitt.

Hvaðan ertu helst að fá innblástur þessa dagana?
Innblástur er hægt að sækja allstaðar frá, snýst bara um að opna fyrir það og gefa sér tíma. Þessa dagana þarf ég að bóka tíma hjá sjálfri mér og fá algjöran frið til að hugsa. Þá finnst mér gott að skoða ljósmyndabækur og kíkja á ljósmynda/myndlistarsýningar.
Hvað hvetur þig áfram í listinni/vinnunni?
Ég gjörsamlega elska að taka myndir og það að ég fái að vinna við það og lifa á því eru algjör forréttindi. Ætli það sé ekki bara ástin á ljósmyndun sem hvetur mig áfram, sjá hugmynd verða að verki.
Hverju ertu að vinna að núna/hvað er næst?
Ég er þessa dagana mikið í portrettum, fólk er mitt uppáhalds viðfangsefni. Svo hlakka ég mikið til að fá tíma aftur til að skapa mín eigin verk, ætli það sé ekki næst á dagskrá ef leikskólaplássið kemur i haust!
